Ítrekað búið að vara við

Þorsteinn Víglundsson skrifar:

Ítrekað búið að vara við

Ríkisstjórninni er nokkur vandi á höndum eftir að Hagstofan birti nýja þjóðhagsspá sína. Spáin staðfestir það sem við í Viðreisn höfum ítrekað varað við. Að ekki væri innistæða fyrir þeirri miklu aukningu ríkisútgjalda sem ríkisstjórnin hefur stefnt að. Óhjákvæmilegt er að endurskoða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna þessa. Annað væri óábyrgt.

Ætla má að ríkissjóður verði af tekjum upp á um 40 milljarða króna á ári. Ný þjóðhagsspá felur í sér að landsframleiðsla verði um 115-150 milljörðum króna minni á ári hverju á árunum 2020-2024 og tekjur ríkissjóðs eru liðlega 30% af landsframleiðslu. Því til viðbótar má ætla að útgjöld ríkissjóðs verði eitthvað meiri vegna aukinna útgjalda, m.a. vegna meira atvinnuleysis. Ríkisútgjöld eru sveiflujafnandi að þessu leyti, þau hafa tilhneigingu til að lækka í góðæri og hækka í hallæri.

Það er ekkert sem kemur á óvart við nýja þjóðhagsspá. Við höfum alltaf búið við miklar hagsveiflur hér og það var frá upphafi óraunhæft af hálfu ríkisstjórnarinnar að byggja áætlanir sínar á óskhyggju um endalausan hagvöxt. Sér í lagi þegar viðvörunarljósin hafa verið logandi í hagkerfinu í þó nokkurn tíma. Nú er komið að skuldadögum og ríkisstjórnin verður að forgangsraða upp á nýtt og skera niður útgjaldaáform sín.

Ég vona svo sannarlega að það verði í forgangi að verja heilbrigðis- og velferðarkerfið og ætla að þar ríki þverpólitísk samstaða um. Hins vegar má það ekki verða svo nú, líkt og allt og oft áður, að opinberar fjárfestingar verði skornar niður. Uppsöfnuð þörf er þar einfaldlega of mikil. Bæði hvað varðar innviðauppbyggingu á borð við samgöngur, en ekki síður í uppbyggingu nýs Landsspítala, hjúkrunarheimila og annarrar nauðsynlegrar þjónustu.

Ég vona að ríkisstjórninni beri gæfa til að forgangsraða rétt og munum við í Viðreisn svo sannarlega halda þeim við efnið við afgreiðslu þessa máls.

Nýjast