Heimsþorpið

Halldór Auðar Svansson skrifar:

Heimsþorpið

Þegar internetið fór að verða almennilega aðgengilegt almenningi, snemma á síðasta áratug síðustu aldar, var því spáð af mörgum að það myndi færa fólk nær hvert öðru, auka samheldni og samkennd. Talað var um 'heimsþorpið', heiminn sem eitt stórt náið samfélag sem myndi skapast út frá netinu.

Þetta hefur gengið eftir að einhverju leyti en alls ekki öllu. Við erum vissulega tengdari og það er auðveldara en áður að finna fólk um allan heim til að tala við og tengjast út frá áhugamálum, lífsstíl eða öðru sem fólk á sameiginlegt þvert yfir landamæri. Fordómar hafa minnkað og samkennd aukist. Samt sem áður erum við ennþá að glíma við fordómana, skortinn á samkennd og jafnvel uppgang öfgaþjóðernissinnaðra pólitískra afla víða um heim sem vilja leysa vandamál með því að henda upp múrum og loka sig af.

Ég held að skýringuna sé að finna í því að netið hefur alls ekki þróast sem einhvers konar heimsþorp þvert yfir landamæri. Þvert á móti hafa skapast einangraðar sellur og sellur innan sella. Einstakir hópar fólks eru kannski tengdari en áður en það er ekkert endilega mikil tenging á milli hópa yfir landamæri, hvort sem það eru landamæri milli þjóða, stétta, eða kynþátta. Veruleikinn er ekki einn, upplýsingar eru ekki fullkomlega hlutlausar heldur eru þær túlkaðar út frá nefi hvers og eins - og þess fyrir utan er jafnvel mjög misjafnt hvaða upplýsingar berast hvaða hópum. Algrím stórfyrirtækjanna sjá til þess að færa fólki það sem fyrirtækin telja að fólk vilji sjá.

Það er ekkert mál fyrir fordóma að grassera í slíku umhverfi og ekkert mál fyrir hópa að hópa sig saman gegn öðrum hópum, sem er skuggahliðin á samtengingunni. Þegar samkenndin inniheldur bara fólk sem er eins og maður sjálfur er hún orðin að hættulegu vopni. Það virðist ekkert erfiðara en áður fyrir stjórnmálamenn að beita þessu vopni til að ná völdum á þeim forsendum að þeir ætli sér að vernda einn hóp fyrir öðrum hópi (nokkuð sem nútímahugmyndum um algild mannréttindi er beinlínis ætlað að koma í veg fyrir). Það virðist jafnvel í núverandi umhverfi vera auðveldara en nokkru sinni fyrr.

Lausnirnar eru ekki einfaldar en þær fela klárlega í sér að fólk átti sig á því að persónuleg samkennd fæst ekki bara með því að hanga á netinu með fólki sem er eins og maður sjálfur. Hún fæst með því að stíga út fyrir þægindarammann og með því að loka ekki augum og eyrum fyrir því að allt fólk er mannlegt. Valdhafar, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir sem hafa vald til að stýra upplýsingamiðlun og orðræðu, bera líka mikla ábyrgð. Það er vitað mál að þegar fólk er á sjálfstýringu þá dettur það mjög auðveldlega í gryfjur fordóma og alhæfinga. Það er eiginlega hið sjálfgefna, hugsanaletin. Ef ekki er verið að hrista upp í þankagangi fólks þá er það á sjálfstýringu hins þægilega. lokar sig af í sínum sellum og býst við því að vera verndað gagnvart öllu sem því finnst óþægilegt að heyra af. Kaupa ódýrar lausnir á vandamálum sem snúast í raun um að sópa þeim undir teppið, hafa allt fólk sem þykir einhverra hluta vegna óþægilegt eða of öðruvísi úr augsýn.

En hver veit - kannski mörgu fólki finnist bara svona þægilegt að vera pínu lokað af. Kannski er ég bara að tala til þeirra sem eru nú þegar sannfærð um að það sé dyggð í sjálfu sér að rækta með sér almenna samkennd. Fólkið sem finnst það ekki vera ein af mikilvægustu dyggðunum mætti þó gjarnan spyrja sig að því hvaða aðrar dyggðir eru þá mikilvægari.

Nýjast