Fordómafullur og fáránlegur fréttaflutningur

Sema Erla Serdar skrifar:

Fordómafullur og fáránlegur fréttaflutningur

Að vinna gegn fordómum, öfgum og hatri er sameiginlegt verkefni allra þeirra sem mynda saman samfélag. Fjölmiðlar gegna þar lykilhlutverki og það gerir stjórnmálafólk líka. Aðgerðir þeirra geta haft jákvæð eða neikvæð áhrif og dregið úr eða ýtt undir fordóma, hatur og ótta hjá fólki.

Forsíðufrétt Morgunblaðsins í gær um umsækjanda um alþjóðlega vernd sem hafði „safnað sýru úr rafgeymum bifreiða á brúsa“ er mjög skýrt dæmi um hið síðarnefnda. Ekkert annað kemur fram í fréttinni en þessi fullyrðing. Ekki kemur fram hvers vegna hann safnaði þessari sýru og ekkert er sagt um viðbrögð lögreglu. Morgunblaðið leyfir hugmyndaflugi lesenda að fylla upp í eyðurnar.

Það er ljóst öllum sem vilja sjá að „fréttaflutningur“ sem þessi er einungis til þess fallinn til þess að ýta undir ótta hjá fólki og fordómum í garð fólks á flótta. Það verður því að viðurkennast að það hafi komið á óvart að flestir fjölmiðlar hafi bitið á agnið og dreift þessum áróðri Morgunblaðsins án þess að leita staðreynda um málið.

Þeir stjórnmálamenn sem hafa sama markmið og Morgunblaðið, að hræða fólk til liðs við stefnu sína og málflutning, gripu auðvitað tækifærið og gerðu tilraun til þess að auka stuðning við ógeðfellda stefnu sína sem byggir á útlendingaandúð og fordómum á kostnað fólks á flótta og æru þeirra. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn þeirra.

Hann sagði: „Ekki dettur mér það til hugar að fallegur og góður ásetningur liggi þar að baki“ um hælisleitandann sem Morgunblaðið fjallaði um. Hann gefur þar með til kynna, án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um málið, að umræddur aðili hafi ætlað sér eitthvað illt. Hann gerir því nákvæmlega það sem Morgunblaðið bauð upp á, hann fyllir upp í eyðurnar með fordómum sínum og öfgum til þess að fá frekari stuðning við útlendingaandúð sína sem allir þekkja. Hann afmennskar fólk á flótta og gerir úr því vonda og hættulega einstaklinga.

Nú hefur meira komið í ljós um umrætt mál. Lögreglan taldi ekki nauðsynlegt að hafa frekari afskipti af málinu og komið hefur fram að nota átti sýruna til að losa stíflu í vaski. Það er ekki mitt að leggja frekara mat á málið enda trúi ég því að lögreglan hefði haft frekari afskipti af málinu ef þurft hefði og gripið hefði verið til annarra aðgerða en að senda hann úr landi og á flakk ef ógn stóð af manninum. Eins og hefði átt við um hvern einasta einstakling, óháð bakgrunni hans og stöðu í samfélaginu.

Fréttaflutningur Morgunblaðsins er forkastanlegur og viðbrögð Ásmundar Friðrikssonar og annarra sem brugðust við á svipaðan hátt eru þeim til háborinnar skammar. Fordómar í garð fólks á flótta má finna víða og þeir fara vaxandi og verða öfgakenndari með hverjum deginum. Það er þróun sem nauðsynlegt er að bregðast við. Þar bera fjölmiðlar mikla ábyrgð og það gerir stjórnmálafólk líka.

Fjölmiðlar verða að hætta að ýta viljandi undir fordóma og hatur í garð viðkvæms hóps í samfélaginu og stjórnmálafólk verður að hætta að ala á ótta hjá fólki. Við þurfum að vinna saman að því að uppræta fordóma, hatur og öfgar til þess að koma í veg fyrir mismunun, ofbeldi og sundrung í samfélaginu okkar. Það þurfa allir að taka þátt í því verkefni.

Nýjast