Eftirspurnin eftir skynsemi

Eftirspurnin eftir skynsemi

Umræðan um Sjóð 9 og Bjarna Benediktsson veldur Sjálfstæðisflokknum skaða. Enn og aftur eru mál sem eru tiltölulega auðútskýranleg í sjálfu sér að valda Bjarna vandræðum. Mál sem hann mátti vita að gætu og myndu líklega koma upp á yfirborðið.

Í sjálfu sér er ekkert stórkostlega athugavert að hafa tekið fjármuni úr sjóði 9 þann 2. október 2008. Flestum sem eitthvað fylgdust með fjármálamarkaði var ljóst eftir yfirtöku Seðlabankans á Glitni og lækkunar lánshæfismats rískisins fyrsta virka dag þar á eftir að útlitið væri dökkt. Bjarni hefur útskýrt það ágætlega og dugir sú skýring flestum sem ekki leggja beinlínis fæð á manninn og ættina. Það sem veldur honum vandræðum fyrst og fremst er eldra svar þar sem hann segir aðspurður að hann hafi ekki átt fjármuni sem máli skipti í sjóði 9. Í því svari liggur annars vegar möguleiki á ósannindum eða að 50 milljónir króna séu ekki fjármunir sem skipti hann máli. Almenningur á erfitt með að tengja sig við að fjórfaldur lottóvinnigur skipti ekki máli.

Nóg um það. Vandi Sjálfstæðisflokksins er djúpstæðari en fjölmiðlafár í kringum einstakar gjörðir formannsins. Flokkurinn hefur verið að færast markvisst í átt að hreinræktuðum íhaldsflokki sem rúmar ekki frjálslyndari sjónarmið. Áður fyrr var stefna flokksins skýr í utanríkismálum og í því hvar hagsmunum Íslendinga sé best borgið til langframa. Samfélag þróaðra lýðræðisríkja var sá vettvangur sem sjálfstæðismenn töldu best fyrir hagsmuni lítillar þjóðar og það með réttu. Innanlands hafa kjóendur ríkari ástæðu til að ætla að flokkurinn standi vörð um hagsmuni stórfyrirtækja fremur en samkeppni og virkan markað.

Endalok kalda stríðsins hafa kannski afhjúpað með einhverjum hætti að þessi utanríkisstefna var ekki byggð á uppbyggilegri sýn um framtíð og hagsmuni þjóðarinnar, heldur ótta og skýrum óvini í Sóvétríkjunum og samferðaríkjum þeirra.

Síðan kaldastríðinu lauk hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki fundið skýra stefnu til framtíðar. Það sem verra er hann hefur ekki viljað taka upp málefnalega umræðu um þau mál. Niðurstaðan er sú að þeir sem vildu taka skynsamlega umræðu um utanríkismál og halda merkjum vestrænnar samvinnu á lofti með því að skoða fulla aðild að Evrópusambandinu voru hraktir úr flokknum sem leiddi til stofnunar Viðreisnar.

Viðreisn rekur skynsamlega hófsama stefnum í efnahagsmálum, neytendamálum og velferðarmálum eins og kom fram í máli formanns flokksins, en rót flokksins er áhersla á mikilvægi þess að móta skynsamlega framtíðarsýn á það hvar hagsmunum lítillar herlausrar þjóðar er best borgið til langframa. Vandinn núna er að eins mikilvægt og það er, þá munu kosningarnar núna ekki snúast um það. Til þess að það gerist þarf væntanlega enn einn niðurtúr hagkerfisins með tilheyrandi falli krónunnar og verðbólgu í kjölfarið.

Nýjast