Sextugt Evrópusamband

Róbert Trausti Árnason

Sextugt Evrópusamband

Enginn getur sagt fyrir um hvernig sextugt Evrópusamband (ESB) verður á sig komið við lok þessa árs. Uppsagnarbréf fastafulltrúa Stór-Bretlands hjá Evrópusambandinu er aðeins áfall. Mjög vægt áfall. En þá er það óútkljáð innan Evrópusambandsins hvort Stóra-Bretland eigi yfirhöfuð heima innan þess. Lokafangbrögð eru framundan á milli þeirra ESB þjóða sem telja að sambandið eigi að taka á sig mynd Bandaríkja Evrópu og hinna ESB þjóðanna sem vilja aðeins að sambandið verði bandalag ríkja sem koma endrum og eins fram undir merki Evrópusambandsins um skýrt afmarkaðar sameiginlegar lausnir. Öllum þorra pólitíkusa í Þýskalandi og Frakklandi er mikil fróun í þeirri fullvissu að „Brexitflanið“ renni einfaldlega út í sandinn fyrir árslok. Á Íslandi er „Brexitflanið“ bæði hrífandi og uggvænlegt í augum áhorfenda. Það sem málsmetandi íslenskur álitsgjafi kallar „máttvana gremju“ er gauragangur andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu sem kemur nú fram í nýstárlegri og sterkir þjóðrækni þeirra sem minnir á innsta eðli Fjölnismanna. Sterk tilhneiging gerir vart við sig á Íslandi til að vingast við væntanlega utangarðsríkið Stóra-Bretland samfara hreinni einangrunarstefnu gagnvart Evrópusambandinu. Heimatilbúnir aðildarskilmálar ráða ferðinni. „Brexitflanið“ styrkir fálmkenndar upphrópanir um Evrópumál og kæfir yfirvegaða umræðu.              

 

Nýjast