Vissi Ibsen þetta?

Vissi Ibsen þetta?

Í leikriti Ibsen „Óvinur fólksins“ sem er nú í nýrri leikgerð í Þjóðleikhúsinu er því hent á loft að það séu ekki upplýstar ákvarðanir í samfélaginu sem fái framgang heldur það sem er vinsælast.

Þessi spurning er áleitin í pólitíkinni núna. Það eru kosningar framundan. Þau mál sem fengu framgang við þinglokin í fyrrinótt eru þau sem geta talist „vinsæl“ og sem hæst hefur verið haft um undanfarið. Og ekki að ástæðulausu.

Með allri virðingu fyrir mikilvægi málanna, þ.e. breytingu á útlendingalögum og lögum um uppreist æru þá voru eflaust önnur mál við þinglokin sem hefði mátt klára.

Breytt lög um uppreist æru eru þegar í farvegi, allir flokkar eru á sömu blaðsíðu um að lögin séu löngu úrelt. En því þurfti að eyða tíma í að klára það akkúrat núna? Auk þess sem stór eyða stendur enn eftir í þeim lagalið og málið langt í frá klárað inni á þingi samkvæmt reglum réttarríkisins.  

Breytingin á lögum um útlendingalög eru einnig þannig að óhjákvæmilegt er að málið farið aftur í meðferð þingsins. Breytingin tekur ekki á málefninu í heild. Hún snýst um rétt saklausra barna sem nú þegar eru hér á landi í hælisleit – lögin eru afturvirk. En það koma fleiri börn hingað og óvíst á ýmsa vegu hvernig standa skal að málum af hendi löggjafans framvegis.

Lög um NPA eða notendastýrða persónulega aðstoð við fatlaða var enn og aftur geymd til næsta þings. Hér er alls ekki verið að setja í „annað hvort eða“ fasann. Allt eru þetta mikilvæg mál. En af hverju þurfa fatlaðir að bíða enn eitt misserið eftir svo mikilvægum lagabreytingum sem veita einstaklingunum meira frelsi yfir eigin lífi?

Spurningin er bara: Hvaða mál er vinsælast nú 4 vikum fyrir kosningar? 

Ibsen skrifaði leikritið sitt -  En folkefiende - Fyrir um 130 árum síðan. Við erum eiginlega enn á sama stað. 

Nýjast