Geysir var seldur

Geysir var seldur

 Umræða um kaup útlendinga á jarðnæði á Íslandi stigmagnast. Áhugi erlendra fjárfesta vex. Slík kaup eru þó ekki bundin við Ísland. Til dæmis er hvergi á Norðurlöndunum umsvif kínverskra kaupenda meiri en í Noregi segir í frétt Rúv í apríl. Kínverskar fjárfestingar í Noregi nema rúmlega 45 milljörðum norskra króna frá árinu 2008, hátt í sex hundruð milljörðum íslenskra. 

Og mér skilst að eigendur hafnarinnar í Aþenu séu kínverskir.

Útlendingar með lögheimili hér á landi og EES-borgarar hafa sama rétt og Íslendingar til að kaupa jarðir – margar þeirra með miklum hlunnindum. Kaupendur utan EES þurfa þó undanþágu frá ráðherra, t.d. um að ætla að stunda einhver atvinnurekstur sem samræmist umhverfi jarðarinnar.

Ef litið er til fortíðar er þetta viðfangsefni ekki nýtt af nálinni.

Unnur Birna karlsdóttir, sagnfræðingur vekur athygli á forvitnilegri staðreynd á vef Náttúrusýnar fyrir nokkrum árum. Um þarsíðustu aldamót, skrifar hún að ýmislegt verðmætt hafi verið selt útlendingum. Jafnvel hverinn Geysir hafi verið seldur Englendingi sem bauð landinu hverinn reyndar til kaups aftur árið 1893 en því var engu sinnt á þinginu þá. Það eru breyttir tímar og meðvitundin allt önnur í dag.

Kaup Englendings á Elliðaánum átti sér líka stað rifjar Unnur Birna upp. Þessi sala var afleitur afleikur var skrifað í Þjóðólfi þá, enda um að ræða „veiðiá með allmiklu fossafli undir handarjaðrinum á höfuðstaðnum.“ Reykjavíkurbær keypti svo árnar af enska eigandanum fyrir nálega þrefalt verð.

 

Nýjast