Þrýst á Guðlaug Þór að skipa pólitíska sendiherra

Þrýst á Guðlaug Þór að skipa pólitíska sendiherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur fengið margar óskir frá fjórflokknum um að skipa fyrrum stjórnmálamenn í embætti sendiherra á meðan hann situr enn í stöðu utanríkisráðherra.

Það er opinbert leyndarmál að milli fjórflokksins ríkir óformlegt samkomulag um að skipa fyrrum stjórnmálamenn í stöður sendiherra. Nýleg dæmi um það eru Geir Haarde, Árni Þór Sigurðsson, Svavar Gestsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Markús Örn Antonsson.

Áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum þrýsta nú á Guðlaug Þór að skipa Unni Brán Konráðsdóttur, fyrrum forseta Alþingis, í stöðu sendiherra en hún féll af þingi í nýafstöðnum kosningum sem þykir mjög vandræðalegt í flokknum. Talið er að Guðlaugur hafi vilja til að skipa Unni. Einnig hafa Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir brottfallnir fyrrum ráðherrar flokksins sóst mjög stíft eftir sendiherrastöðum. Hermt er að Guðlaugur Þór hafi engan áhuga á að koma þeim til hjálpar enda er hann tregur til að breyta utanríkisþjónustinni í flóttamannabúðir fyrir fallna stjórnmálamenn.

Aðrir flokkar hafa einnig beðið ráðherra að skipa fólk úr eigin röðum. Framsókn telur sig eiga inni greiða og sama gildir um Samfylkinguna. Þó er talið fullvíst að hvorki Össur Skarphéðinsson né Árni Páll Árnason hafi áhuga á sendiherraembættum. Þeir hafa þó báðir mikla reynslu og hæfileika til að gegna slíkum störfum.

Svo er það spurning hvort fráfarandi utanríkisráðherra muni bjóða fráfarandi fjármálaráðherra sendiherraembætti að skilnaði.

Benedikt myndi sóma sér vel í Brussel.

Rtá.

Nýjast