Tekur Áslaug Arna þá við?

Tekur Áslaug Arna þá við?

Hart er sótt að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, eftir að breska blaðið The Guardian og Stundini fjölluðu um fjármál Bjarna og fjölskyldu hans í tengslum við bankahrunið á Íslandi. Bjarni er borinn þungum sökum og honum borið á brýn að hafa nýtt sér viðkvæmar upplýsingar sér og sínum til framdráttar en Bjarni leysti út á síðustu stundu innstæður sínar í Sjóði 9 sem var lokað með miklu tapi fyrir sjóðseigendur.

 

Helga Vala Helgadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, hefur krafist þess að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að rannsaka aðkomu Bjarna að trúnaðarupplýsingum og meðferð þeirra á síðustu dögunum fyrir hrun.

 

Samfélagsmiðlar hafa logað í dag vegna málsins. Ýmsir flokksmenn Bjarna taka til varna fyrir hann og segja að fátt nýtt komi fram í þessum uppljóstrunum. Enn fleiri hafa þó fordæmt framferði hans. Einn þeirra sem vandar forsætisráðherra ekki kveðjur er Jónas Kristjánsson sem segir orðrétt á vef sínum:

 

“Bjarni Benediktsson seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2.-6. október 2008. Til dagsins, sem Geir kom með neyðarlögin og bankarnir hrundu. Það segja heimsblaðið Guardian, Reykjavík Media og Stundin í morgun. Bjarni sat þá fundi um alvarlega stöðu bankanna og seldi bréf fyrir 50 milljónir króna. Alls seldi Bjarni bréf í Glitni fyrir rúmlega 120 milljónir króna eftir fundi með Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis. Slíkt innherjamál setti Baldur Guðlaugsson í tveggja ára fangelsi. Ekki er ljóst, hvað verður með Bjarna, en ljóst er, að siðblindingi getur ekki lengur þvælst fyrir í pólitík með sína skítugu putta.”

 

Á næstu dögum hlýtur að koma í ljós hvort Bjarni stendur af sér þessar alvarlegu ásakanir og heldur ótrauður áfram eða hvort hann finnur sig knúinn til að stíga niður af valdastólum og víkja sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

 

Víki hann sem formaður þá vandast málið því flokkurinn hefur í raun og veru engan varaformann. Fyrir tveimur vikum tilkynnti Bjarni að ritari flokksins gegndi embætti varaformanns fram að landsfundi sem verður haldinn  á næsta ári.

 

Það mun þá koma í hlut Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur að taka við formennsku í Sjálfstæðisflokknum, ef Bjarni Benediktsson finnur sig knúinn til að víkja.

 

Rtá.

 

Nýjast