Sjálftaka á Alþingi með hækkun ríkisstyrkja til stjórnmálaflokka um 175% á tveimur árum

Sjálftaka á Alþingi með hækkun ríkisstyrkja til stjórnmálaflokka um 175% á tveimur árum

Svo virðist sem þingmenn allra flokka séu algerlega að tapa sér þegar kemur að fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka. Eða eigum við frekar að segja fjártöku. Allir þingflokkar standa saman að því að hækka framlög ótæpilega til stjórnmálaflokka annað árið í röð. Í fyrra voru fjárframlög ríkisins til stjórnmálaflokka hækkuð um 128% og fóru í 648 milljónir króna. Nú á enn að bæta við og fara með heildarfjárhæð þessarar fjártöku upp í 785 milljónir króna á árinu 2019. Hækkun á tveimur árum nemur 175%.

 

Með þessu eru forystumenn flokkanna algerlega búnir að missa alla jarðtengingu. Það er ekki hægt að nota annað orðalag um þetta en að kalla þetta ósvífni. Á sama tíma og verið er að klípa af loforðum til öryrkja og peninga vantar í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngukerfið og ýmsar grunnstoðir samfélagsins þá leyfa þingmenn sér að nær þrefalda ríkisstyrki til flokkanna þeirra á tveimur árum.

 

Maður getur skilið að forystumenn gömlu flokkanna kalli eftir peningum enda eru þeir skuldum vafðir. Þannig skuldar Sjálfstæðisflokkurinn nær 500 milljónir króna og staða VG, Framsóknar og Samfylkingar er einnig slæm. 

 

En að nýjir flokkar skuli standa að þessari ósvífnu fjártöku veldur vonbrigðum. Maður hefði viljað sjá Viðreisn, Pírata, Flokk fólksins og Miðflokkinn standa gegn því að stjórnmálaflokkar féfletti ríkissjóð með þessum hætti. Er ekki hlutverk nýrra flokka að bæta vinnubrögðin í stjórnmálum? Halda þeir að þetta geti talist til bættra vinnubragða?

 

Með svona framkomu nýju flokkanna veltir maður því fyrir sér hvort ekki sé bara nóg að vera með einn stjórnmálaflokk á Íslandi, einn ríkisflokk. Svona rétt eins og tíðkaðist í Sovétríkjunum þegar þau voru upp á sitt besta. Viðreisn, Píratar og aðrir nýjir flokkar verða að gera betur en þetta ef þeir vilja láta taka sig alvarlega.

 

Rtá.

Nýjast