Ríkisstjórn sérhagsmuna sýnir sitt grímulausa andlit

Ríkisstjórn sérhagsmuna sýnir sitt grímulausa andlit

Marga rak í rogastans þegar formaður Samtaka iðnaðarins benti á það í ræðu sinni á Iðnþingi í gær að ekki væri að finna eitt einasta orð um iðnað í stjórnarsáttmála núvernadi ríkisstjórnar. “Orðið “iðnaður” kemur ekki fyrir í gjörvöllum sáttmálanum”, sagði Guðrún Hafsteinsdóttir formaður í ræðu sinni. Greina mátti mikinn undurnarsvip á andlitum flestra þeirra 400 fundarmanna sem hlýddu á ræðu hennar í Hörpu.

 

Í stjórnarsáttmálanum eru sérstakir kaflar um landbúnað, sjávarútveg, ferðaþjónustu og fjármálaþjónustu – og auðvitað í þessari röð!

 

Við völd í landinu er þriggja Framsóknarflokka ríkisstjórn sem hefur það að meginmarkmiði að gæta sérhagsmuna landbúnaðar og sjávarútvegs, meðal annars og ekki síst á kostnað íslensks iðnaðar, neytenda og skattgreiðenda almennt.

 

Það er með ólíkindum að ekki skuli vera rætt um iðnað í stjórnarsáttmálanum og að orðið “iðnaður” sé þar hvergi nefnt þrátt fyrir þá staðreynd að iðnaður skapi 30% landsframleiðslunnar á Íslandi, skapi rúmlega þriðjung gjaldeyristekna landsmanna og atvinnu fyrir 20% þeirra sem eru á vinnumarkaði. Þrátt fyrir það sér núverandi ríkisstjórn ekki ástæðu til að nefna iðnað í sáttmála sínum. Það segir allt um hugarfar þeirra stjórnmálamanna sem bera ábyrgð á sáttmálanum. Það segir allt um stefnu þeirra þriggja Framsóknarflokka sem mynda valdsstjórnina. Þeir hugsa bara um landbúnað og sjávarútveg og hvernig best megi gæta sérhagsmuna sægreifa og bændamafíunnar á kostnað almennings.

 

Aldrei áður í stjórnmálasögu Íslands hefur verið samþykktur ríkisstjórnarsáttmáli þar sem iðnaður hefur verið sniðgenginn með öllu.

 

Það má furðulegt heita að þetta mál hafi ekki vakið athygli fyrr en á Iðnþingi í gær þegar ríkisstjórnin hefur verið við völd í þrjá mánuði. Fjölmiðlar hafa ekki vakið máls á þessu. Og hvar hefur stjórnarandstaðan verið? Sennilega hefur hún ekki nennt að lesa þetta ómerkilega plagg, sáttmála núvernadi ríkisstjórnar, frekar en aðrir. Stjórnarandstöðunni ber þó skylda til þess. Hún þarf að vakna!

 

Íslenskur iðnaður hefur greinilega verk að vinna. Hann þarf að fá stöðu þessarar mikilvægu atvinnugreinar virta og viðurkennda innan stjórnkerfisins. Íslenskur iðnaður á engan iðnaðarráðherra núna. Áður fyrr og til skamms tíma var staða iðnaðarráðherra innan ríkisstjórnarinnar sterk og mikilvæg. Nú er sú staða veik. Nánast engin. Nú er mikilvægustu atvinnugrein Íslands boðið upp á að einn ráðherra gegni embætti sem kallað er ráðherra “ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar”. Ferðaþjónusta og iðnaður skila þjóðinni 80% allra gjaldeyristekna og standa undir hagvexti landsmanna. Samt hafa þær ekki sérstakan ráðherra hver um sig og þurfa að sætta sig við reysnlusausan og veikan ráðherra sem þekkir ekkert til í atvinnulífinu eða í stjórnmálum. Þessar tvær mikilvægu atvinnugreinar þurfa að sætta sig við unga konu sem er nýkomin út úr skóla og kann ekkert til verka á þeim vettvangi sem henni hefur verið falið að sinna.

 

Núverandi ríkisstjórn sýnir burðargreinum atvinnulífsins lítilsvirðingu.

 

Þetta er ekki boðlegt. Atvinnulífið á ekki að sætta sig við “trakteringar” af þessu tagi.

 

Rtá.

Nýjast