Ragnar Reykás aðstoðar fjármálaráðherra

Ragnar Reykás aðstoðar fjármálaráðherra

Í dálknum Frá degi til dags í Fréttablaðinu er fjallað um Ólafíu B. Rafnsdóttur sem hrökklaðist úr embætti formanns VR sl. vor þegar Ragnar Þór Ingólfsson felldi hana með afgerandi hætti í formannskosningu.

Komin hringinn er fyrirsögn Fréttablaðsins. Svo segir:

“Ólafía Rafnsdóttir vakti fyrst athygli sem starfsmannastjóri 365 miðla og tók sem slík þátt í kjarasamningagerð fyrir hönd fyrirtækis síns. Síðar var hún kjörin formaður VR og varaformaður ASÍ þar sem hún gætti hagsmuna launþega í kjarabaráttu við atvinnurekendur. Síðan fór hún til starfa sem aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra. Það má segja að nú sé Ólafía komin í heilhring þegar kemur að kjaraviðræðum því nú hefur hún tekið sæti í samninganefnd ríkisins og mun sem slík væntanlega taka þátt í kjaraviðræðum við fulltrúa starfsmanna ríkisins.”

Ólafía er komin í heilhring. Hún snýst eins og vindhani á húsmæni. Eitt í dag – annað á morgun. Í hvaða liði telur hún sig vera? Fyrst á móti launþegum við samningaborðið. Síðan í liði launþega og svo á móti þeim að nýju. Engin prinsipp. Engin staðfesta. Ekkert nema eigin hagsmunir eins og kom best fram þegar Ólafía lét hækka laun sín um 45% sem formaður VR á tveimur árum á meðan hún samdi um 10% almenna launahækkun fyrir félagsmenn í VR.

Segja má að fjármaálráðherra hafi valið Ragnar Reykás sem aðstoðarmann sinn. Eða öllu heldur Rögnu Reykás. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig viðsemjendur ríkisins meta trúverðugleika þessa samningamanns ríkisins sem hefur vippað sér yfir samningaborðið eins og ekkert sé einfaldara en að skipta um lið og grundvallarprinsipp.

Full ástæða er til að setja spurningarmerki við dómgreind fjármaálráðherra að hafa valið Ólafíu sem aðstoðarmann sinn. Hún naut ekki meiri virðingar en svo innan VR eftir formennskuferil sinn þar að jafnvel Ragnari Þór Ingólfssyni tókst að fella hana í formannskosningu með nokkrum yfirburðum. Félagsmenn VR treystu henni ekki. Hún hlaut einungis stuðning 8% allra félagsmanna VR eftir fjögurra ára valdatíð þar. Frekari forysta hennar á þeim vettvangi var afþökkuð með afgerandi hætti.

Val fjármálaráðherra á Ólafíu B. Rafnsdóttur í starf aðstoðarmanns er enn eitt dæmið um seinheppni Benedikts Jóhannessonar. Sem formaður Viðreisnar leiddi hann flokkinn til viðunandi niðurstöðu í kosningum sl. haust. Síðan hefur allt verið niður á við undir forystu hans. Meira en helmingur fylgis Viðreisnar er tapaður og samkvæmt stórri skoðanakönnun á vegum RÚV nú um mánaðarmótin er fylgið komið niður í 4,8%, úr  11,5%, og niður í aðeins tvo þingmenn. Einungis sæti Þorgerðar Katrínar Gunnarssonar og Þorsteins Víglundssonar væru tryggð, ef gengið yrði til kosninga núna. Hvorki Benedikt né varaformaður flokksins kæmust þá á þing.

Hvað ætlar stuðningsfólk Viðreisnar að gera við þessar aðstæður? Ætla menn að horfa upp á flokkinn þurrkast út undir forystu Benedikts eða ætla flokksmenn að freista þess að vinna stöðu Viðreisnar til baka með nýjum formanni og varaformanni?

Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör. Þannig hefur það verið enn sem komið er varðandi forystumál Viðreisnar. Á því þarf að verða breyting sem fyrst ef ekki á illa að fara.

Viðreisn á fullt erindi í íslenskum stjórnmálum því stefnan er góð og kosningaloforðin voru falleg. Nú vantar flokkinn einkum trúverðugleika. Flokkurinn verður að fylgja markaðri stefnu sinni og standa við gefin  kosningaloforð. Það þarf stefnufestu.

Hjá Viðreisn er ekkert rúm fyrir anda Ragnars Reykáss.

Rtá

 

Nýjast