Nýtt ár, ný ríkisstjórn og nýr formaður Sjálfstæðisflokksins

Nýtt ár, ný ríkisstjórn og nýr formaður Sjálfstæðisflokksins

Í staðinn fyrir að taka þátt í samkvæmisleikjum eins og völvuspám, hef ég rætt við fjölda áhugamanna um stjórnmál og rýnt í raunverulega stöðu nú í lok árs. Átökin í verkalýðshreyfingunni munu ekki hjálpa til og sannarlega ekki einfalda stöðuna. Hreyfingin er nú klofin í tvennt og fylkingarnar munu keppast um hver getur gert meiri usla og náð fram meiri launahækkunum óháð kjarabótum. Forysta Eflingar og VR hugsar lítið um hagsmuni félagsmanna en meira um pólitík. Aðallega er miðað við að hleypa öllu upp og skapa glundroða. Þessir aðilar munu kalla verkföll yfir þó ekki sé til annars en að standa við hótanir og stór orð. Sólveig Anna og Ragnar Þór telja sig verða að sýna vígtennur og það munu þau gera óháð raunverulegum hagsmunum félagsmanna.

 

Ég spái því að mikil átök á vinnumarkaði muni leiða til verkfalla og skæruhernaðar í febrúar og mars sem skaði tilteknar atvinnugreinar meira en aðrar. Þetta mun skapa óróa og ólgu og enda með því að ríkisstjórnin neyðist til að setja lög á tiltekin verkföll sem teljast vera skemmdarverk. Í kjölfarið verða barðir saman samningar allra helstu hópa á vinnumarkaðnum í lok mars. Allir verða óánægðir með niðurstöðuna. Launþegar munu líta þannig á að þeir hafi borið allt of lítið úr býtum. Atvinnurekendur munu telja að kostnaðarhækkanir verði allt of miklar og að óhjákvæmilegt verði að velta þeim út í verðlagið. Ríkisstjórnin verður pínd til að spila út skattalækkunum fyrir hina lægst launuðu og miðlungstekjufólk. Þessar lækkanir verða allt of miklar fyrir fjárhag ríkisins þannig að fjárlagaramminn brestur. Afleiðingar alls þessa munu mjög fljótlega koma fram í allnokkurri veikingu krónunnar, verðbólgu og kaupmáttarrýrnun sem gæti jafnvel orðið umfram þær launahækkanir sem nást fram í þvinguðum samningum. Enginn mun geta litið á sig sem sigurvegara. Allir verða í tapsliði.

 

Í kjölfarið á þessu sýður upp úr hjá Vinstri grænum. Grasrótin mun líta þannig á að Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. hafi svikið fólkið í flokknum með því að setja lög á verkalýðinn. Stofnanir flokksins munu krefjast stjórnarslita. Katrín kemst ekki hjá því að hlýða vilja flokksmanna og verður að slíta stjórnarsamstarfinu. Það mun hún gera nauðug enda er henni farið að líka vel við valdið og öll fínheitin sem fylgja embætti forsætisráðherra. Rétt fyrir páska um miðjan apríl verður boðað til kosninga sem fara fram laugardaginn 8. júní. Ríkisstjórnarflokkarnir munu eiga í vök að verjast enda mun þá liggja fyrir að afrekaskrá hennar er nær engin eftir 18 mánaða feril. Einkum verður á brattann að sækja hjá Vinstri grænum með laskaða forystu. Ríkisstjórninni verður kennt um klúður á vinnumarkaði, gengisfellingu og verðbólgu sem verður farin að mælast meira en tvöföld á við það sem verið hefur eða ífkringum 7%.

 

Eftir stutta, snarpa og illskeytta kosningabaráttu verða útslit kosninganna þau að ríkisstjórnin kolfellur. Vinstri grænir rétt ná mönnum inn á þing. Fá einungis fjóra menn kjörna, tvo í Reykjavík og 2 úti á landi. Steingrímur J. býður sig ekki fram aftur. Bjarni Benediktsson hættir í stjórnmálum, boðar til landsfundar í september og verður ekki í framboði. Flokkurinn eykur fylgi sitt og nær 18 þingmönnum. Samfylking fær 12 þingmenn kjörna og Viðreisn 8 menn. Þessir tveir flokkar verða taldir sigurvegarar kosninganna. Pírötum gengur einnig vel og fá 9 þingmenn, Framsókn 8 eins og síðast, Flokkur fólksins þurrkast út en Sigmundi Davíð tekst að ná kjöri og tekur með sér þrjá þingmenn enda verður búið að fórna bæði Gunnari Braga og Bergþóri Ólasyni.

 

Ekki mun taka langan tíma að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Viðreisnar undir forsæti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Meðal annarra ráðherra í ríkisstjórninni má nefna Loga Einarsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Þorstein Víglundsson, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur og Unni  Brá Konráðsdóttur sem mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins til sigurs í Suðurkjördæmi. Jón Gunnarsson tekur við ráðherraembætti að nýju enda mun hann leiða lista flokksins í Kraganum.

 

Guðlaugur Þór Þórðrson verður kjörinn formaður í Sjálfstæðisflokknum um miðjan september án mótframboðs.

 

Ný ríkisstjórn mun einbeita sér að því að reyna að ná tökum á efnahagsmálunum sem verður erfitt en mun takast – mörgum að óvörum.

 

Gleðileg jól!

 

Rtá.

Nýjast