Ný Gallup-könnun er áfall fyrir stjórnina sem er fallin og Lilja úti

Ný Gallup-könnun er áfall fyrir stjórnina sem er fallin og Lilja úti

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra kæmist ekki á þing ef ný Gallup-könnun gengi eftir. Könnunin er mjög stór og stóð yfir allan desember á meðan áhrifin af Klausturhneykslinu voru sem mest.

Í ljósi þess er merkilegt að bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn ná inn þingmönnum þó þeir tapi vitanlega fylgi. Það bendir til þess að þeir jafni sig fyrr en margir hafa spáð.

Rúv og fleiri fjölmiðlar reyndu að gera píslarvott úr Lilju Alfreðsdóttur vegna ljótra orða Klausturdónanna um hana. En það hefur ekki meiri áhrif en svo að hún næði ekki inn á þing og Framsókn fengi 7 menn kjörna í stað 8 í kosningunum.

Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt könnuninni eins og hefur verið raunin frá miðju síðasta ári. Vinstri græn tapa 3 þingsætum, Sjálfstæðisflokkur 1 og Framsókn einnig. Ríkisstjórnin hefði því einungis 30 þingmenn á bak við sig sem hlýtur að valda áhyggjum og ugg.

Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í rúmlega 20% fylgi en hefur lengst af haldið allt að 40% stuðningi. Þetta fylgishrun er að verða viðvarandu og verður allt í formannstíð Bjarna Benediktssonar. Flokkurinn fengi nú 15 menn kjörna. Birgir Ármannsson formaður þingflokksins er fallinn.

Samfylkingin næði nú 13 mönnum í stað 7 í kosningunum. Flokkurinn gerir nú atlögu að því að skáka Sjálfstæðisflokknum úr fyrsta sæti eins og gerðist 2009.

Viðreisn bætir einnig myndarlega við sig og fengi nú 7 menn í stað 4. Flokkurinn næði 2 í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, 2 í SV og manni í Suðurkjördæmi.

Klausturflokkarnir tapa en koma skár út úr þessu en mátti ætla. Flokkur fólksins missir einn mann, Karl Hjartarson, en Miðflokkur tapar 4 þingmönnum, þar á meðal sætum Gunnars Braga og Bergþórs.

Það hljóta að vera gífurleg vonbrigði fyrir Framsókn að græða ekki meira fylgi á Klausturklúðrinu en þetta. Fólk er fljótt að gleyma og óhætt er að spá því að Miðflokkurinn verði orðinn stærri en Framsókn í mars nk. Þá er það vægast sagt veikt hjá þeim að Lilja nái ekki inn á þing en flokkurinn mælist einungis með 5% fylgi í Reykjavík.

Árið 2019 gæti orðið viðburðarríkt í stjórnmálum hér á landi með svona veika ríkisstjórn við völd.

Nýjast