Næsta ríkisstjórn verður vond

Næsta ríkisstjórn verður vond

Ekki er mögulegt að mynda á Íslandi vænlega ríkisstjórn eftir úrslit síðustu kosninga. Alveg sama hvernig dæminu er stillt upp. Það mun alltaf vanta heilindi og raunverulegan vilja til samstarfs.

 

Þetta sást á þeirri stjórnarmyndunartilraun sem þegar er runnin út í sandinn. Stjórnarandstaðan varð að prófa til þess að sá kostur hafi verið kannaður. Allir gátu sagt sér tvennt fyrirfram varðandi þá hugmynd: Píratar eru ekki stjórntækir og Framsókn fór aldrei í þær viðræður af minnstu alvöru. Framsókn er að bíða eftir Sjálfstæðisflokknum.

 

Fljótlega verður reynt að koma saman stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Miðflokks og Flokks fólksins. Það mun ekki ganga þegar fólk áttar sig á því að það yrði svartasta íhaldsstjórn Íslandssögunnar. Einhverjir munu guggna þegar þeir þurfa að horfast í augu við Sigmund Davíð í stjórnarsamstarfi. Menn munu hlaupa hljóðandi frá þeirri hugmynd, hræddir við sjálfan fílinn í herberginu.

 

Sjálfstæðisflokkinn dreymir um ríkisstjórn með VG og Framsókn – úr því sem komið er. VG vill ekki klemmast á milli þessara tveggja Framsóknarflokka og óttast um stöðu sína í slíku samstarfi. VG vilja heldur mynda stjórn með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki en það vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

 

Bjarni Benediktsson veit að hann verður að koma flokki sínum í ríkisstjórn, hvað sem það kostar. Annars eru dagar hans sem formanns taldir. Hann mun því slá af öllum kröfum þegar líður á nóvembermánuð og berja saman ríkisstjórn.

 

Ætli næsta ríkisstjórn verði ekki hálfgerð þjóðstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, VG og Framsóknar. Á bak við hana yrðu 42 þingmenn og fulltrúar allra helstu sjónarmiða, hreinræktuð kyrrstöðustjórn valdanna vegna.

 

Hún gæti lifað fram að fjárlögum sem þarf að afgreiða í desember 2018. Þá fengjum við að kjósa til Alþingis að nýju í febrúar 2019.

 

 

Rtá.

 

Nýjast