Lilja er ekki á leið í seðlabankann enda er bankinn ekki lengur dvalarheimili fyrrverandi ráðherra

Lilja er ekki á leið í seðlabankann enda er bankinn ekki lengur dvalarheimili fyrrverandi ráðherra

Kjánaleg umræða var í gangi um helgina sem gekk út á að hugsanlega tæki Lilja Alfreðsdóttir við starfi bankastjóra Seðlabanka Íslands. Vangaveltur af þessu tagi eru fjarstæða vegna þess að Lilja uppfyllir engin skilyrði til að verða bankastjóri Seðlabanka Íslands. Áður fyrr tíðkaðist að koma fyrir í bankanum fyrrverandi ráðherrum, meðal annars úr Framsóknarflokknum. Tómas Árnason fékk á sínum tíma stöðu seðlabankastjóra og einnig Steingrímur Hermannsson eftir að stjórnmálaferli þeirra lauk. Þá var Davíð Oddsson skipaður bankastjóri Seðlabanka Íslands árið 2005. Illu heilli því hann stýrði bankanum í gjaldþrot og er af mörgum talinn einn af „höfundum hrunsins“ árið 2008.

 

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét vísa Davíð á dyr í bankanum árið 2009 voru sett lög sem gera skýrar hæfiskröfur til bankastjóra seðlabankans, m.a. um mikla menntun og helst doktorsgráðu á sviði þjóðhagfræði. Þessi lagabreyting var gerð til að koma í veg fyrir að slys eins og skipan Davíðs endurtæki sig. Lilja Alfreðsdóttir uppfyllir ekki menntunarkröfur eða aðrar hæfiskröfur sem gerðar eru til seðlabankastjóra. Þess vegna voru vangaveltur netmiðla um helgina út í hött og beinlínis grátbroslegar.

 

Einhver skýring hlýtur samt að vera á því að svona umræðu er ýtt á flot. Helst kemur í hugann að þeir sem hafa verið að reyna að koma á sáttum milli Framsóknarflokks og Miðflokks telji að meiri líkur væru á sáttum milli flokkanna ef Lilja hyrfi af vettvangi stjórnmálanna. Það er trúlega rétt mat því hún er óskaplega móðguð eftir Klausturmálið eins og allir vita. Lilja hefur reynt að gera sér pólitískan mat úr því máli en það hefur ekki tekist mjög vel. Fylgi Framsóknarflokksins jókst nokkuð fyrst eftir að málið kom upp en er aftur á niðurleið. Þannig mældist flokkurinn einungis með 8.8% í síðustu könnun Gallups og hafði lækkað um fjóðrung frá könnuninni þar á undan. Framsóknarmenn munu vera uggandi um framhaldið og óttast að fylgið fari fljótlega niður í 7% og verði minna en hjá Miðflokknum. Það yrði mikið áfall.

 

Lilja Alfreðsdóttir var millistjórnandi í Seðlabanka Íslands áður en hún var kölluð til ráðherrastarfa á vegum Framsóknarflokksins. Hún gæti eflaust fengið slíkt starf að nýju í bankanum. En bankastjóri verður hún ekki. Hæfiskröfurnar eru allt of miklar til þess að það geti orðið.

Nýjast