Lausaganga óánægðra Framsóknarmanna

Lausaganga óánægðra Framsóknarmanna

Ófriður magnast innan Framsóknarflokksins. Hafi einhverjir haldið að Sigmundur Davíð væri búinn að gefast upp, þá hafa þeir rangt fyrir sér. Margir töldu að Sigmundur léti fljótlega staðar numið og flytti jafnvel til útlanda og sinnti þaðan fjársýslu fjölskyldu sinnar sem rekin hefur verið frá Tortóla eins og alþjóð veit.

Sigmundur Davíð hefur sett markið á formannsstól í Framsókn að nýju. Stuðningsmenn hans hafa að undanförnu komið í gegn hjá nokkrum flokksfélögum áskorunum um að flýta næsta flokksþingi og formannskosningum. Samkvæmt venju ætti að kjósa forystu flokksins að nýju haustið 2018 en nú er gerð krafa um að flýta kosningum um heilt ár og ljúka þeim fyrir lok árs 2017.

Sigmundur Davíð og stuðningsmenn hans telja greinilega að “tími hans muni koma” – og það strax á þessu ári. Um það eru vissulega skiptar skoðanir innan flokksins. Margir telja að þjóðin sé alls ekki búin að gleyma Tortólamálum Sigmundar og Panamaskjölunum sem felldu hann úr embætti forsætisráðherraa fyrir rúmu ári. Aðrir Framsóknarmenn telja að þjóðin sé svo galin að hún hafi fyrirgefið honum og gleymt hvers vegna hann hrökklaðist frá völdum.

Náttfari telur að kjósendur séu alls ekki eins vitlausir og stuðningsmenn Sigmundar virðast halda. Því muni hann ekki ná því að komast á toppinn að nýju í flokknum.

Miðstjórn Framsóknar kemur saman þann 20. mai og þar mun væntanlega koma til skoðanaskipta um það hvort flokksþingi og kosningum verður flýtt um eitt ár eða ekki. Ólíklegt er að það verði samþykkt.

Sigurður Ingi Jóhannsson mun sitja sem fastast en óánægðir flokksmenn geta ólmast eins og þeim sýnist, án þess að það hafi nokkur áhrif að svo stöddu.

Hvað kann svo að gerast á flokksþingi Framsóknar haustið 2018 er ómögulegt að spá um. Sigurður Ingi gæti þá ákveðið að hætta til að snúa heim í sveitina að nýju. Hann gæti einnig ákveðið að halda áfram og þá yrði erfitt að fella hann, nema flokkurinn fari hraklega út úr sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári.

Eitt og hálft ár í pólitík er langur tími. Viðbúið er að Sigmundur Davíð verði orðinn býsna óþolinmóður, takist ekki að flýta flokksþingi og formannskosningum. Fari svo, þá gætum við allt eins séð á eftir honum úr landi fyrir fullt of fast.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti að sóma sér vel í sólinni á Tortóla.

rtá.

 

Nýjast