Hvort ætli sé verra að vera “gluggaskraut” eða “tuskubrúða”?

Hvort ætli sé verra að vera “gluggaskraut” eða “tuskubrúða”?

Í aðdraganda Alþingiskosninga vorið 2013 voru Vinstri græn við það að þurrkast út samkvæmt skoðanakönnunum. Þá var brugðið á það ráð að fórna Steingrími J. úr formannsstólnum en hann var rúinn trausti. Varaformaðurinn tók við formennsku, Katrín Jakobsdóttir. Hún hafði verið menntamálaráðherra frá 2009 og verið næsta verklaus og þar af leiðandi ekki aflað sér óvinsælda eins og Steingrímur.

Hagur VG vænkaðist aðeins við þetta þannig að flokkurinn þurrkaðist ekki út af þingi í kosningunum 2013. Davíð Oddsson uppnefndi Katrínu í Morgunblaðinu og kallaði hana “gluggaskraut.” Það þótti argasti dónaskapur á þeim tíma. Var afgreitt með því að þetta væri bara Moggalygi og íhaldsáróður.

Svo líða fimm ár og Katrín selur sál sína til Sjálfstæðisflokksins fyrir embætti forsætisráðherra, gefur eftir nær öll stefnumál VG og er haldið í pólitískri gíslingu afturhaldssflanna og sérhagsmunaflokkanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Raunverulegum vinstrimönnum sárna svik hennar við málstaðinn og láta hana fá það óþvegið. Karl Th Birgisson hefur skrifað opið bréf þar sem hann dregur Katrínu sundur og saman í háði. Hann unir alls ekki við að hún skjóti skildi fyrir margdæmdan dómsmálaráðherra og óheiðarlegt fjármálavafstur Bjarna Benediktssonar sem Stundin hefur afhjúpað.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkonan skelegga, gengur enn lengra en Davíð gerði á sínum tíma. Katrínu kallar hún “tuskubrúðu” Bjarna Ben. Seint verður Steinunn vænd um að vera pólitískur andstæðingur sósíalista.

Það er því miklu verri áfellisdómur yfir Katrínu að vera kölluð “tuskubrúða” af Steinunni en að fá ágjöf frá Moggamönnum.

Og fylgi VG fellur jafnt og þétt. Ætli flokkurinn lumi á nýju “gluggaskrauti”?

Rtá.

Nýjast