Hvers vegna vill Geir Þorsteinsson ganga aftur?

Hvers vegna vill Geir Þorsteinsson ganga aftur?

Það er vægast sagt fátítt að menn velji sér það hlutskipti að reyna að ganga aftur inn á vettvang sem þeir hafa kvatt.

Geir Þorsteinsson hefur óvænt boðið sig fram til formennsku í KSÍ sem hann gegndi í 10 ár og hætti fyrir 2 árum. Þá var Guðni Bergsson kjörinn formaður og hefur sinnt því hlutverki með reisn, reglusemi og myndarskap.

Þegar Geir dró sig í hlé fyrir tveimur árum voru flestir sáttir við það enda gætti þá vaxandi ólgu með störf og framgöngu formannsins. Honum var ljóst að hann næði ekki kjöri gegn frambærilegu formannsefni.

Frá því Geir lét af formennsku í KSÍ hefur lítið frést af honum utan þess að hann bauð sig fram fyrir Miðflokkinn í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor. Geir leiddi listann og vænti þess að komast í bæjarstjórn. Það mistókst. Miðflokkur Geirs í Kópavogi var langt frá því að fá hann kjörinn bæjarfulltrúa.

Menn hafa velt því fyrir sér hverjir hafi hvatt Geir til að freista þess að ganga aftur hjá KSÍ. Ýmsir þykja greina fingraför Eggerts Magnússonar fyrrum formanns KSÍ en Geir þótti mjög hallur undir Eggert á sínum tíma. Þá mun hann njóta stuðnings Jóns Rúnars Halldórssonar formanns FH sem vill koma ár sinni betur fyrir borð hjá KSÍ. Þá er talið að Geir njóti einhvers stuðnings á Suðurnesjum.

Fyrir utan þetta er vandséð hvaðan stuðningur ætti helst að koma við Geir Þorsteinsson.

Svo virðist að hér sé á ferðinni framboð án eftirspurnar.

Nýjast