Hvenær stöðvar Fjármálaeftirlitið Ragnar Þór endanlega

Hvenær stöðvar Fjármálaeftirlitið Ragnar Þór endanlega

Enn er beðið eftir útskurði Fjármálaeftirlitsins (FME) vegna freklegra afskipta formanns og meirihluta stjórnar VR af innri málum Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) þegar VR afturkallaði skipan fjögurra stjórnarmanna sinna og valdi nýja. FME hefur ekki samþykkt þá ráðstöfun og beðið stjórnarmenn að sitja áfram þar til endanleg niðurstaða fæst.

 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur afhjúpað sig og samferðarmenn sína. Hann er ekki að gæta hagsmuna félaga í VR og hann er enn síður að gæta hagsmuna 170.000 sjóðsfélaga í LíVE þegar hann ræðst að sjóðnum með dylgjum og ásökunum. Skuggastjórnun er ekki liðin hjá lífeyrissjóðum landsins. FME hefur m.a. það hlutverk að tryggja að það gerist ekki og FME ber að tryggja rétt kjörnum stjórnum sjóðanna vinnufrið fyrir utanaðkomandi tilraunum til íhlutunar í rekstur og stjórn sjóðanna. Gildir þá einu hvort tilburðir til afskipta koma frá stjórnmálamönnum, embættismönnum, verkalýðsfélögum aða öðrum. Stjórnarmenn lífeyrissjóða bera ábyrgð og hafa skyldur og þeir þurfa að hafa tryggðan vinnufrið. Enginn fær að starfa í stjórn lífeyrissjóðs nema ganga fyrst undir hæfispróf hjá FME. Það sýnir að stofnuninni er ætlað að hafa vakandi auka með lífeyrissjóðunum og stjórnum þeirra.

 

Óhætt er að halda því fram að aðdrei áður hafi komið upp staða á borð við þá sem Ragnar Þór Ingólfsson og meirihluti stjórnar VR bera ábyrgð á. Gerð er aðför að sjálfstæði LIVE þar sem 170.000 sjóðsfélagar eiga lífeyrissparnað sinn í vörslu. Um er að ræða nær 800 milljarða króna sem er fjárhæð svipuð fjárlögum ríkisins á heilu ári. Engin efnisleg rök eru fyrir háttsemi Ragnars Þórs og félaga. Hér er einungis um grímulausa pólitík að ræða.

 

Nú reynir á FME fyrir alvöru. Gera verður þá kröfu til stjórnar og yfirmanna FME að þeir stigi nú niður fæti og stöðvi árorm VR. Það gerist með því að fyrri stjórn verði úrskurðuð lögmæt og tilburðir VR dæmdir ólöglegir. Einnig þarf að víta formann VR fyrir órökstudd og meiðandi ummæli um núverandi stjórn og stjórnendur LÍVE og lífeyrissjóðanna í landinu.

 

Hraða þarf niðurstöðunni til að eyða óvissu. FME þarf að sýna að stofnunin sé vandanum vaxin.

Nýjast