Hvaða braggi skyldi nú vera dýrastur?

Hvaða braggi skyldi nú vera dýrastur?

 Viðskiptablaðið sem er andleg og skoðanaleg hjáleiga frá Morgunblaðinu tekur oft undir nöldur Moggans í málefnum sem eru blaðinu kær. Ávalt er rætt um ESB, evru, Brussel og allt hið vonda sem tengist því. Einnig er talað illa um RÚV flesta daga. Svo koma stundum upp tímabundin hugðarefni sem bæði blöðin fjalla um. Fyrst Morgunblaðið og svo étur Viðskiptablaðið upp eftir Moggamönnum.

 

Viðskiptablaðið birtir jafnan nafnlausa dálka þar sem ýmsum viðhorfum er hampað. Margir telja að Andrés Magnússon, forstöðumaður skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins, skrifi þessa pistla oftar en ekki.

 

Nú síðast fjallar hann um að Reykjavík hafi eignast dýrasta bragga í heimi. Þar er gert lítið úr endurbyggingu mannvirkja í námunda við Reykjavíkurflugvöll sem voru braggar á sinni tíð. Ungur arkitekt, Margrét Leifsdóttir, hefur hannað mjög frambærileg mannvirki sem borgin hefur látið endurgera.

 

En hver er Margrét Leifsdóttir? Hún er barnabarn Gísla Halldórssonar heitins sem var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í 20 ár, forseti borgarstjórnar og einn helsti áhrifamaður flokksins í borgarmálum, skipulagsmálum og íþróttamálum í áratugi. Forstöðumanni skrímsladeildarinnar hefur yfirsést þetta þegar hann valdi að drulla yfir þessa ungu konu og borgaryfivöld. Andrés sér allt gegnum þröng flokksgleraugu eins og Kjartan Magnússon bróðir hans og fyrrverandi borgarfulltrúi. Þess vegna hefði hann átt að muna eftir Gísla Halldórssyni. 

 

Rétt til að upplýsa Andrés og aðra að dýrasti „braggi“ á Íslandi er ráðhús Reykjavíkur sem reist var í tíð Davíðs Oddssonar og kostaði 20 milljarða á núverandi verðlagi. Allt í skuld. Borgin átti ekki krónu upp í þessa fjárfestingu en lét reisa húsið og fékk til þess yfirdrátt hjá Landsbankanum. Seinni tíma stjórnmálamenn, eins og Ingibjörg Sólrún, þurftu svo að fást við að borga brúsann.

 

Ekki mikil ráðdeild á þeim tíma. Ekki góð fjármálastjórn á þeim tíma. Ekki góð forgangsröðun á þeim tíma.

 

En Andrés, skrímsladeildarmaður: Það er ekki sama hver „bragginn“ er?  Jón eða séra Jón!

 

Rtá.

Nýjast