HOLA ÍSLENSKRA FRÆÐA er sorglegur minnisvarði um dugleysi Katrínar Jak, Illuga, Kristjáns Júl og Lilju

HOLA ÍSLENSKRA FRÆÐA er sorglegur minnisvarði um dugleysi Katrínar Jak, Illuga, Kristjáns Júl og Lilju

Skömmu fyrir kosningar vorið 2013 tók þáverandi menntamálaráðherra fyrstu skóflustungu að Húsi íslenskra fræða á besta stað í borginni við Suðurgötu.

Ekki vantaði að Katrín Jakobsdóttir brosti breitt og iðaði öll af spenningi vegna verksins - enda stutt í kosningar. Hún gaf digrar yfirlýsingar sem menntamálaráðherra um að húsið ætti að rísa hratt. Ekki veitti af loforðum enda var flokkur hennar, Vinstri græn, við það að þurrkast út af þingi skv. öllum skoðanakönnunum. Hún tilkynnti að húsið yrði vígt árið 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Árið 2018 er liðið og enn er þarna einungis stór hola, minnisvarði um fjóra duglausa menntamálaráðherra.

Vinstri stjórnin féll þetta sama vor og Katrín hvarf úr menntamálaráðuneytinu án þess að vinna þar nokkur afrek á fjórum árum. Afrekaskrá hennar þar er eitt stórt núll. Við embættinu tók Illugi Gunnarsson. Hann dvaldi verklítill í ráðuneytinu í þrjú og hálft ár. Hús íslenskra fræða þokaðist ekkert áfram á þeim tíma fyrir utan blómlegan njólavöxt í holunni. Talið er að 31 tegund háplantna hafi þar skotið rótum.

Kristján Þór Júlíusson tók þá við embætti menntamálaráðherra næstu 10 mánuðina og gerði heldur ekkert í ráðuneytinu. Holan var á sínum stað þegar hann kvaddi ráðuneytið án þess að skilja nein spor þar eftir.

Lilja Alfreðsdóttir hefur nú gegnt embætti menntamálaráðherra í 17 mánuði án þess að Hús íslenskra fræða þokist áfram. Holan er á sínum stað og æpir á okkur sem eigum þar leið hjá í viku hverri. Hún vitnar um dugleysi fjögurra menntamálaráðherra sem geta bara talað og lofað einhverju við hátíðleg tækifæri. En þau eiga það sammerkt að geta ekki látið verkin tala.

Ætli menntamálaráðuneytið sé andsetið?
Ætli sé grasserandi mygla í gamla SÍS-húsinu þar sem ráðuneytið starfar?
Það hlýtur að finnast skýring á samfelldu verkleysi og doða sem einkennt hefur allt í ráðuneytinu síðustu tíu árin.

HOLA ÍSLENSKRA FRÆÐA er minnisvarði yfir dugleysi síðustu fjögurra ráðherra menntamála, Katrínar, Illuga, Kristjáns Þórs og Lilju.

Nýjast