Framsóknarmenn vilja Lilju en ekki flokkinn

Framsóknarmenn vilja Lilju en ekki flokkinn

Fréttablaðið birtir athyglisverðar skoðanakannanir í dag og í gær. Spurt er um traust á ráðherrum. Svör kjósenda eru greind með ýmsum hætti. 

Ein merkilegasta niðurstaðan er sú að yfir 60% framsóknarmanna treysta Lilju varaformanni en einungis 15% þeirra treysta formanni sínum, Sigurði Inga Jóhannssyni. Þetta er mikið áfall fyrir Sigurð Inga. Það verður erfitt fyrir hann að lifa við þetta.

Þegar á heildina er litið bera kjósendur mest traust til Lilju Alfreðsdóttur. Það er stórmerkileg niðurstaða þegar litið er til könnunar blaðsins í vikunni sem mældi fylgi flokka. Þar fékk Framsóknarflokkurinn einungis 7.1% fylgi og var langneðstur þeirra flokka sem næðu mönnum inn á þing.

Það er kaldhæðnislegt að Lilja mælist með mest traust allra ráðherra en flokkur hennar er í frjálsu falli í fylgi! Með öðrum orðum: Framsóknarmenn vilja Lilju en ekki Framsóknarflokkinn. Þetta er auðvitað grátbroslegt.

Samkvæmt fylgiskönnun Fréttablaðsins fengi Framsókn einungis 7.1% sem gæfi flokknum 5 þingmenn í stað 8 í síðustu kosningum. Flokkurinn fengi þá tvo menn kjörna á Suðurlandi, aðra tvo í Norð-Austur og einn í Norð-Vestur kjördæmi.
Það þýddi að Lilja Alfreðsdóttir félli út af þingi en hún býður sig fram í Reykjavík.
Hér er um vandræðalega stöðu að ræða fyrir Framsókn, ekki síst í ljósi þess að Miðflokkurinn/Klausturflokkurinn er orðinn mun stærri og mælist með um 10% fylgi.

Lilja Alfreðsdóttir hefur nær engu komið í verk sem ráðherra. En hún gætir þess vel að birtast stöðugt brosandi í fjölmiðlum og blaðra út í eitt og láta eins og hún sé að gera eitthvað í ráðuneyti sínu.

Það virðist duga til að skapa traust kjósenda. Sömu kjósenda og vilja ekki flokkinn hennar!

Nýjast