Framsóknarbændur vildu auðvitað ekki borga fyrir Eyþór

Framsóknarbændur vildu auðvitað ekki borga fyrir Eyþór

Vandræðagangurinn í kringum Eyþór Arnalds heldur áfram, í smáu sem stóru. Núna síðast þurfti hann að endurgreiða styrk sem Mjólkursamsalan greiddi í kosningasjóð hans vegna leiðtogaprófkjörs í janúar sl. Vinur Eyþórs og pólitískur sálufélagi, Ari Edwald forstjóri Mjólkursamsölunnar, hafði látið greiða kr. 200.000 í kosningasjóð Eyþórs án samþykkis mjólkurbændanna sem eiga samsöluna.

 

Auðvitað kæra mjólkurbændur sig ekkert um að styrkja íhaldið í Reykjavík. Þeir eru allir framsóknarmenn og flokkur þeirra mælist ekki með nægilegt fylgi í Reykjavík til að koma manni inn í borgarstjórn. Þess vegna er það út úr kú að kúabændur dæli aurum í kosningasjóð Eyþórs. Vegna þessa varð talsvert uppistand sem endaði með því að Eyþór neyddist til að endurgreiða styrkinn.

 

Rétt er að rifja upp að Eyþór Arnalds og Ari Edwald sátu í kosningastjórn Davíðs Oddssonar í forsetakosningunum árið 2016, sælla minninga. Davíð hlaut 13% atkvæða í kosningunum og náði einungis fjórða sæti sem var næsta sæti á undan Sturlu Jónssyni vörubílstjóra. Eyþór og Ari voru helstu ráðgjafar og stuðningsmenn Davíðs í þessari mestu sneypuför síðari ára á Íslandi.

 

Nú hjálpast þeir allir að vegna borgarstjórnarkosninganna eftir hálfan mánuð með það að markmiði að fá meira en 13% fylgi fyrir Eyþór og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum.

 

Rtá

Nýjast