Eru þrotabú föllnu bankanna endalaus uppspretta ofurlauna útvalinna?

Eru þrotabú föllnu bankanna endalaus uppspretta ofurlauna útvalinna?

Eitt af því sem sker í augu þegar tekjublöðum FV og DV er flett, eru tekjur þeirra sem hafa komist í verkefni fyrir þrotabú föllnu bankanna. Hafa ber í huga að senn eru 9 ár frá falli íslenka bankakerfisins og enn er verið að véla um málefni þessara þrotabúa. Svo virðist sem verkefni valinna manna ætli að verða nær endalaus uppspretta ofurlauna sem eru úr öllu samhengi við íslenskan veruleika.

 

Lítum á nokkur dæmi:

 

Ársæll Harðarson lögfræðingur sem unnið hefur fyrir skilanefnd gamla Landsbankans greiðir tekjuskatt af 24milljónum króna á mánuði ári 2016. Hann er í sérflokki þeirra sem unnið hafa fyrir slitabúin og sýna tekjurnar sem launatekjur en ekki sem rekstrartekjur í einkahlutafélögum sínum. Það er þó virðingarvert.

 

Kristján Óskarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri þrotabús Glitnis, var með um 9 milljónir króna í tekjur á mánuði árið 2016, Kolbeinn Árnason í slitastjórn LÍ var með 7,5 milljónir, Snorri Viðarsson hjá Glitni með 7 milljónir á mánuði í fyrra og Ragnar Björgvinsson hdl. í Glitni með 6,5 milljónir króna á mánuði 2016.

 

Þessi dæmi verða hér látin nægja um það rugl sem ennþá viðgengst varðandi rekstur á þrotabúum gömlu bankanna. Þarna er á ferðinni stjórnlaus sjálftaka og þessi starfsemi virðist ganga fyrir sig án þess að nokkuð eftirlit eða aðhald innanlands komi við sögu.

 

Þessu til viðbótar birtir Fréttablaðið í dag þá frétt að fjórum stjórnendum slitabús Landsbankans hafi verið tryggðar 350 milljónir króna samtals í bónusa á þessu ári. Blaðið heldur því fram að þeir fái þessar fjarhæðir án nokkurrar aðkomu að þeim gjörningum sem eru tilefni til umræddra bónusgreiðslna.

 

Þessi frétt leiddi til þess að hinn orðvari formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, lýsti því yfir að honum hafi orðið óglatt við lestur Fréttablaðsins í morgun.

 

Eftir það er hægt að halda því fram að fjármálasukkið í þrotabúum föllnu bankanna sé orðið að heilbrigðisvandamáli.

 

rtá.

Nýjast