Er mygla í menntamálaráðuneytinu?

Er mygla í menntamálaráðuneytinu?

Þegar myglusveppir taka sér bólfestu í húsum veldur það ómældum skaða hjá þeim sem búa eða starfa í umræddum húsum. Oft lýsir þetta sér með doða, þreytu og almennu magnleysi. Dæmi er um stórar skrifstofubyggingar á Íslandi sem hafa orðið myglusveppum að bráð með þeim afleiðingum að fyrirtæki eða stofnanir hafa orðið nær óstarfhæf vegna doða og starfsfólk hefur veikst eða þurft að draga sig í hlé tímabundið.

Vangaveltur um myglusvepp koma í hugann þegar litið er yfir starfsemi menntamálaráðuneytisins síðustu átta árin. Það er með ólíkindum hve verklaust ráðuneytið hefur verið í tíð síðustu þriggja menntamálaráðherra. Ráðuneytið er til húsa í stórhýsi sem áður hýsti höfuðstöðvar Sambands íslenskra samvinnufélaga. Ríkið keypti húsið af SÍS og flutti menntamálaráðuneytið þangað.

Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra vinstri stjórnarinnar frá 2009 til 2013. Í ráðherratíð sinni var hún kurteis og elskuleg eins og hennar var von og vísa. En ekki rekur nokkurn mann minni til þess að eitthvað markvert hafi gerst í ráðuneytinu á þessum tíma. Því er ekki einu sinni haldið fram. Illugi Gunnarsson tók við embætti menntamálaráðherra og gegndi því frá vorinu 2013 til 10. janúar 2016. Sami doðinn einkenndi ráðherraferil Illuga og Katrínar. Hann kom þó í gegn styttingu námstíma til stúdentsprófs um eitt ár, sem reyndar er nokkuð umdeild ákvörðun. En þó ákvörðun sem verður í minnum höfð. Það er þó meira en sagt verður um Katrínu Jakobsdóttur.

Síðustu 9 mánuði hefur Kristján Þór Júlíusson verið menntamálaráðherra. Sama gildir um hann og hin tvö. Ekkert að frétta.

Er skrítið að fólk velti fyrir sér hvort myglusveppur hrjái menntamálaráðuneytið – svona í gamni og alvöru -  því myglusveppur er alvarlegt mál.

 

Rtá.

Nýjast