Er Mogginn málgagn Miðflokksins og Klausturdónanna?

Er Mogginn málgagn Miðflokksins og Klausturdónanna?

Skrif ritstjóra Morgunblaðsins sem birt eru í leiðurum og Reykjavíkurbréfi verða sífellt einkennilegri. Þeir sem ennþá reyna að rýna í þessi skrif Davíðs velta því fyrir sér hvað hafi komið fyrir þennan mann sem átti góða spretti á ofanverðri síðustu öld.

Upp úr aldamótum fór svo að halla hratt undan fæti hjá honum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins tók að dala, Davíð hrökklaðist út úr stjórnmálum en skipaði þá sjálfan sig bankastjóra Seðlabanka Íslands í starf sem hann réði ekkert við. Það endaði með bankahruni haustið 2008 eins og allir muna og bitnaði á fjölmörgum. Davíð Oddsson fékk viðurnefnið “höfundur hrunsins” og hefur síðan reynt að verja mistök sín.

Að undanförnu hefur hann einkum beint spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum og ráðist á forystumenn flokksins en þess í stað tekið undir stefnu og málflutning Klausturdónanna í Miðflokknum. Davíð hefur verið sérstaklega uppsigað við konur í Sjálfstæðisflokknum og afhjúpað grímulausa kvenfyrirlitningu og karlrembu aldurhnigins manns. Varaformaður og ritari flokksins hafa orðið fyrir barðinu á gagnrýni hans. Önnur þeirra er ráðherra en hin þingmaður og verðandi ráðherra. Davíð finnst þær of ungar en þær eru kringum þrítugt. Rétt er að rifja upp að Sjálfstæðisflokkurinn gerði Davíð að borgarstjóra þegar hann var 34 ára. Það þótti allt í lagi. Hvað hefur breyst - annað en að Davíð sjálfur er kominn á áttræðisaldur?

Hann sýnir einnig ólund gagnvart konum í fleiri flokkum. Þannig veittist hann að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í leiðara fyrir nokkrum dögum. Hún er formaður Viðreisnar og hafði birt athyglisverða grein í Fréttablaðinu skömmu áður. Vegna þess hélt Davíð því fram að þar með væri Fréttablaðið orðið málgagn Viðreisnar!
Hann hefði þá átt að bæta því við að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, valdi að birta hátíðarávarp sitt vegna 90 ára afmælis flokksins í Fréttablaðinu en ekki í Morgunblaðinu eins búast mátti við.
Var Fréttablaðið ekki þar með einnig orðið málgagn Sjálfstæðisflokksins?

Miðað við skrif Davíðs um svonefndan þriðja orkupakka sem líkjast helst málflutningi Miðflokksins en leggjast gegn stefnu ríkisstjórnarinnar, mætti draga þá ályktun að Moggi væri nú orðinn málgagn Sigmundar Davíðs Panamagreifa og Miðflokksins.

Hins vegar er alveg hægt að sýna því skilning að formenn stjórnmálaflokka, sem vilja koma málflutningi sínum á framfæri við sem flesta, velji frekar að birta skrif sín í Fréttablaðinu sem dreift er í 80.000 eintökum en Morgunblaðinu sem prentað er í 14.200 eintökum.

Ætla má að bæði Bjarni og Þorgerður Katrín hafi haft þetta í huga þegar þau völdu fjölmiðil til að koma boðskap sínum á framfæri.

Þetta er ekki flókið.

Nýjast