Óttinn við frjálsa samkeppni

Óttinn við frjálsa samkeppni

Óttinn við frjálsa samkeppni er lífseigur á Íslandi. Hann er vanalega klæddur í búning þjóðlegrar og upphafinnar íhaldsemi - og raunar svo vel dúðaður upphrópunum af öllu tagi að ætla mætti af umræðunni að áhangendur frjálslyndis í verslun og viðskiptum séu landráðamenn. Það er svo náttúrlega alveg séríslenskt að svokallaðir frjálshyggjumenn verja stundum einokunina öðrum betur.

Hér á landi eru hjálpartæki atvinnulífsins af öllu tagi. Stórum atvinnugreinum er hampað umfram aðrar, af því einfaldlega að þær eiga sér sterkari bakhjarla í valdaflokkum samfélagsins en andófsmenn kerfisins ráða við. Og það er aldrei spurt um réttlæti. Íslenskir grænmetisbændur hafa lækkað vöruverð hjá sér vegna komu Costco. Mjólkursamsalan hækkar aftur á móti verðið hjá sér.

Fyrrnefndi hópurinn hefur lifað af frjálsa samkeppni - og styrkst og eflst. Og þarf ekki einu sinni niðurgreitt rafmagn til þess, eins og þeir einir fá sem heita erlendir álrisar og er tekið hér af fádæma gestrisni. Á sama tíma húkir mjólkurrisinn í landinu inni í helli sínum. Hann þorir ekki að mæta keppinauti sínum, heldur kýs hann auðvitað áfram að vera ofverndaður og dekraður af kerfinu.

Nýjast