Trúðslæti á fyrsta fundi borgarstjórnar

Trúðslæti á fyrsta fundi borgarstjórnar

Hafin er hörkubarátta um það hver borgarfulltrúanna í nýjum minnihluta verði sér mest til skammar. Sanna Magdalena Mörtudóttir kemur sterk inn og hagar sér eins og óstýrilátur krakki. Svo virðist sem Gunnar Smári Egilsson, flokkseigandi, stjórni henni algerlega. Þá birtist Eyþór Arnalds eins og trúður. Hann er enn í fýlu yfir því að fá ekki að verða borgarstjóri eins og hann og Morgunblaðið dreymdi um. Eyþór getur ekki dulið hve tapsár hann er en framkoma hans eykur ekki neinu við takmarkaða virðingu fyrir honum. Þá hefur Vigdís Hauksdóttir strax stimplað sig inn sem hriðfífl eins og hún var á Alþingi. „Bibba á Brávallagötunni“ íslenskra stjórnmála.

 

Fyrsti borgarstjórnarfundurinn var eins og sirkus. Sanna Magdalena, sem hafði lýst því yfir að hún ætlaði ekki að vera í neinu liði og ekki tilheyra neinum hópi, sigldi þétt upp að fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem eru nú með hana sér til vinstri handar og Vigdísi Hauksdóttur til hægri. „Það slitnaði ekki slefið“ á milli þeirra, sagði Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna. Sanna sem hefur lýst því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn sé höfuðandstæðingur sósíalista og allra þeirra sem standa höllum fæti, er nú orðinn besti vinur XD í borginni. Ætli styttist ekki í að hún sæki um inngöngu í Heimdall sem er „stuttbuxnadeild“ flokksins og prýðilegur vettvangur fyrir þá sem vita ekkert um pólitík en sækjast samt eftir pólitískum þroska? Í Heimdalli gæti hún lært sitthvað á kjörtímabilinu.

 

Sanna lagði fyrir fyrsta fund borgarstjórnar einar sjö tillögur sem virðast flestar vera svo vitlausar að Gunnar Smári Egilsson, flokkseigandi, gæti hafa samið þær. Ein tillagan var um að borgarstjórn Reykjavíkur stæði fyrir stofnun félags strætófarþega. Já, félags strætófarþega!  Hvernig ætti það að geta verið í verkahring borgarinnar að stofna slíkt félag? Borgarstjórn hefur næg önnur verkefni á sinni könnu. Sé þörf á að stofna félag strætófarþega, þá hljóta farþegarnir sjálfir að standa fyrir stofnun félagsins en ekki borgarstjórn Reykjavíkur eða Bæjarstjórn Kópavogs eða ríkisstjórnin.

 

Allur fyrirgangur nýliðanna í borgarstjórn raskaði ekki ró borgarstjórans, Dags B. Eggertssonar. Hann svaraði þeim og lét eins og hann væri að tala við fólk sem hefði eitthvað fram að færa annað en trúðslæti. Dagur lætur ekkert af þessu hagga sér og mun halda áfram að ráða því sem hann vill í Reykjavíkurborg.

 

Á meðan engist minnihluti Eyþórs Arnalds valdalaus og kjánalegur næstu fjögur árin.

 

Rtá.

Nýjast