Stress í Reykjavík enda enginn úr Framsókn til bjargar

Stress í Reykjavík enda enginn úr Framsókn til bjargar

Sjálfstæðismönnum í Reykjavík líður mjög illa þessa dagana. Þeir sjá að verið er að mynda meirihluta í borgarstjórn án þeirra. Margir úr forystu flokksins vildu trúa því að þeim tækist að véla til sín nægilega marga borgarfulltrúa úr öðrum flokkum og mynda meirihluta til að  fella Dag af stalli. Einungis Vigdís Hauksdóttir úr Miðflokknum vill vinna með þeim. Og nú er Framsókn ekki til að hjálpa því flokkurinn fékk engan fulltrúa kjörinn í borgarstjórn.

 

Loksins er það að renna upp fyrir sjálfstæðismönnum að Eyþór Arnalds er ekki maður sem aðrir flokkar sækjast eftir að vinna með. Þá þykja aðrir borgarfulltrúar flokksins heldur ekki spennandi. Flestir óþekktir og óreyndir. Helst að menn sjái stjórnmálamann birtast í Hildi Björnsdóttur sem skipaði annað sætið á lista flokksins.

 

Talsvert hefur borið á því undanfarna daga að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafi rætt við þá sem þeir þekkja í Viðreisn og skorað á þá að reyna að fá flokkinn til að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn “til að losna við Dag” eins og þeir segja gjarnan. Talsverðrar örvæntingar gætir í þessum erindrekstri.

 

Líkurnar á samstarfi Viðreisnar við Eyþór og Vigdísi í Reykjavík hafa aldrei verið miklar. Og þær hurfu nær algerlega þegar minnt var á að þau hafa bæði átt sæti í stjórn Heimssýnar, áhugamannafélags um einangrun Íslands. Vigdís var þar formaður um skeið.

 

Þá hefur það ekki farið fram hjá neinum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið að efna til meirihlutasamstarfs við Framsókn í Hafnarfirði og Kópavogi og tekið slíkt samstarf framyfir samstarf við Viðreisn. Hvers vegna ætti Viðreisn þá að velja Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík?

 

Framsóknarflokkurinn fór hroðalega út úr sveitarstjórnarkosningunum með því að fá engan mann kjörinn í Reykjavík og missa þriðjung fylgis síns í Kópavogi en 45% landsmanna búa í þessum tveimur sveitarfélögum.

 

Nú velta menn því fyrir sér hvort ekki sé rétti tíminn til að sameina Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Báðir þessir flokkar eru í sárum og hafa tapað miklu fylgi á liðnum árum. Í síðustu Alþingiskosningum voru flokkarnir samtals með 35.9% sem er minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn einn hafði nær alltaf fram til þess að Bjarni Benediktsson tók við formennsku. Flokkarnir eru saman í ríkisstjórn og mynda saman meirihluta í nokkrum sveitarfélögum. Stefna flokkanna er alveg eins; á móti ESB og útlöndum, íslensk örkróna til frambúðar,  hagsmunagæsla fyrir sjávarútveg og landbúnað, engar breytingar á stjórnarskrá, áfram gríðarlegt atkvæðamisvægi milli dreifbýlis og þéttbýlis, með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og lækkun á sköttum þeirra sem betur eru settir. Til hvers að flækja lífið með því að hafa þessa flokka á tveimur kennitölum? Það er alveg sami rassinn undir þeim báðum!

 

Sjálfstæðisflokksins bíður áframhaldandi eyðimerkurganga í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann verður næstu fjögur árin í valdalausum minnihluta. Að minnsta kosti næstu fjögur árin. Og engin úr Framsókn til að hugga eins og verið hefur.

 

Rtá.

Nýjast