Ráðherraveikin breiðist út í Valhöll og Áslaug Arna skellti hurðum

Ráðherraveikin breiðist út í Valhöll og Áslaug Arna skellti hurðum

Frekar er búist við því að fljótlega eftir páska verði gengið frá skipan ráðherra í stað Sigríðar Andersen sem hrökklaðist út úr ríkisstjórninni í kjölfar áfellisdóms Mannréttindadómstóls Evrópu yfir henni.

Ekki vannst tími til að velja eftirmann hennar þegar hún sagði af sér með nær engum fyrirvara. Bjarni Benediktsson er í mestu vandræðum með að ganga frá málinu vegna þess hve mikill ágreiningur er í þingflokknum. Talið er að einir sex þingmenn flokksins séu nú illa haldnir af “ráðherraveiki” sem er skæður sjúkdómur meðal stjórnmálamanna. Engin lyf duga við þessum sjúkdómi. Einungis skipan í ráðherraembætti lækna sjúkdóminn.

Strax eftir afsögn Sigríðar krafðist Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þess að taka við embætti dómsmálaráðherra í ljósi þess að hún gegnir embætti ritara flokksins og ekki er um margar konur að velja í þingflokknum. Krafa Áslaugar mun ekki hafa fengið neinar undirtektir. Hún er ung og reynslulítil í stjórnmálum, hálfgerð “pólitísk gelgja” eins og einn viðmælandi orðaði það. Áslaug mun hafa tekið höfnuninni illa, rokið út af fundi í Valhöll og skellt hurðum.

Páll Magnússon krefst ráðherraembættis enda er hann efsti maður á lista flokksins í Suðurkjördæmi en flokkurinn hefur engan ráðherra úr því kjördæmi. Vandinn er sá að Páll nýtur ekki almenns trausts í forystu flokksins. Menn líta enn á hann sem krata. Þá hjálpar klofningur flokksins í Vestmannaeyjum honum ekki. Mörgum þykir Páll hafa svikið í bæjarstjórnarkosningunum í fyrra og sýnt þá sitt rétta andlit.

Einhverjir hafa nefnt þann kost að Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður í Suðurkjördæmi og fyrrum forseti Alþingis, verði valin í embætti dómsmálaráðherra en hún er löglærð. Konur fengju þá sinn fulltrúa - en vísast myndi Páll Magnússon þá ærast endanlega.

Brynjar Níelsson sækist eftir embætti dómsmálaráðherra en hann var starfandi hæstaréttarlögmaður áður en hann fór á þing. Það fyndna er að allt þetta havarí stafar af skipan eiginkonu Brynjars í stöðu dómara við Landsrétt! Það væri eftir öðru hjá Sjálfstæðisflokknum að velja hann þrátt fyrir það. 

Líklegasta niðurstaðan er samt sú að Jón Gunnarsson taki sæti í ríkisstjórninni að nýju og að þá verði jafnframt gerðar einhverjar tilfærslur. Jón hefur mikið látið atvinnumálin til sín taka og gegndi embætti samgönguráðherra í ríkisstjórninni 2017. Þórdís Kolbrún sæti þá væntanlega áfram sem dómsmálaráðherra.

Hver sem niðurstaðan verður þá er það víst að einungis einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins verður glaður - sá sem hlýtur ráðherratign - en nokkrir í fýlu.

Nýjast