Mögulegar breytingar á ríkisstjórninni

Mögulegar breytingar á ríkisstjórninni

Stefnt að innkomu Miðflokks í stað Vinstri grænna fyrir páska

 Að tjaldabaki er nú unnið hörðum höndum að því að gera þær breytingar á ríkisstjórninni að Vinstri grænir fari út úr stjórninni en Miðflokkurinn komi inn í staðinn.

 Stefnt er að þessum breytingum fyrir páska. En fyrst þurfa nokkur atriði að ganga upp. Þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjartarson, fyrrum þingmenn Flokks fólksins, þurfa að ganga í Miðflokkinn þannig að flokkurinn telji níu þingmenn. Ná þarf niðurstöðu í þeim sáttaviðræðum sem nú er unnið að milli formanna Framsóknar og Miðflokksins. Þá er talið nauðsynlegt að lokið verði við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði áður en þessar breytingar verða gerðar á ríkisstjórninni.

 Samkvæmt upplýsingum frá áhrifamönnum í Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Miðflokki þykir þessi kostur áhugaverður af mörgum ástæðum:

 

  • Ríkisstjórnin hefur nú öruggan stuðning 33 þingmanna á bak við sig. Tveir þingmenn VG hafa gert fyrirvara við stuðning við ríkisstjórnina þannig að ekki er á þá að treysta. Eftir að tveir þingmenn hafa bæst við Miðflokkinn þá yrðu þeir 9 og því yrðu 33 þingmenn á bak við breytta ríkisstjórn. Þannig óbreytt staða.
  • Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra. Sjálfstæðismönnum hefur almennt liðið mjög illa með að vera í ríkisstjórnarsamstarfi við Vinstri græna undir forsæti þeirra. Það hefur aldrei gerst áður á Íslandi að sósíalisti hafi leitt ríkisstjórn. Það þykir heldur dapurlegt hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að styðja það og lyfta formanni VG í embætti forsætisráðherra. Ekki bætir út skák að þurfa einnig að styðja Steingrím J. Sigfússon í embætti forseta Alþingis. Sjálfstæðismenn eru ekki búnir að gleyma Landsdómsmálinu þar sem Steingrímur stýrði atburðarásinni þannig að Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins var dreginn fyrir dóminn. Það þótti þá og þykir enn hið mesta óhæfuverk. Almennir flokksmenn myndu fagna þessari breytingu enda vilja þeir sjá formann sinn í embætti forsætisráðherra að nýju.
  • Ýmsir áhrifamenn í Framsóknarflokknum eru sagðir eiga sér þann draum að takast megi að semeina systurflokkana Framsókn og Miðflokkinn. Þessir flokkar hafa nær alveg sömu stefnu og sækja fylgi sitt í sömu hópa. Einungis er um að ræða persónulegan ágreining forystumanna eins og kunnugt er. Bent er á að rök þeirra sem vinna að sáttum séu þau að engin einstaklingur sé stærri en heill stjórnmálaflokkur og þess vegna verði menn að slíðra sverðin og víkja minni hagsmunum til hliðar fyrir stærri hagsmuni. Innan Miðflokks eru einnig gamlir framsóknarmenn sem vinna að sáttum. Forsenda fyrir sáttum er talin vera sú að flokkarnir séu sömu megin við borðið, annað hvort báðir í stjórn eða báðir í stjórnarandstöðu.
  • Þá fara áhyggjur margra vaxandi vegna hugmynda sem fleytt hefur verið um stórfelldar skattahækkanir á almenning, eignamenn og fyrirtæki. Þó Efling hafi kynnt þessar hugmyndir er öllum ljóst að Indriði  Þorláksson er höfundur þeirra en hann var aðalhöfundur skattahækkana sem komið var á í fjármálaráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar. Menn óttast að Vinstri græn muni taka þessar tillögum upp að hluta til og þá yrði friðurinn úti innan núverandi ríkisstjórnar. Menn vilja frekar vera á undan og stýra breytingum á ríkisstjórninni í stað þess að hún springi vegna ágreiningsmála.

 

Fram hefur komið að erfitt gæti verið fyrir þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Sigurð Inga Jóhannsson að eiga saman sæti í ríkisstjórn svo skömmu eftir að Framsókn klofnaði. Bent hefur verið á leið til að milda áhrifin af því. Þannig gæti Sigurður Ingi tekið að sér þá virðingarstöðu að verða forseti Alþingis og Sigmundur Davíð gæti orðið utanríkisráðherra sem eðli máls samkvæmt er mikið á ferðinni út um allan heim embættisins vegna.

Nýjast