Lykilfólk heldur áfram að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn

Lykilfólk heldur áfram að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn

Athygli vekur að Bergþór Ólason skuli ganga til liðs við Miðflokkinn og yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn eftir að hafa gegnt þar margháttuðum trúnaðarstörfum, verið varaþingmaður og aðstoðarráðherra hjá Sturlu Böðvarssyni. Bergþór er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað í atvinnulífinu sem stjórnandi.

 

Ekki minni athygli vekur að Jarþrúður Ásmundsdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, skuli hafa gengið í Viðreisn og muni taka sæti ofarlega á lista flokksins í Reykjavík. Jarþrúður er einnig viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri.

 

Það kom fram í fyrrahaust að þrjár ungar konur, sem allar höfðu gegnt formennsku í Landssambandi sjálfstæðiskvenna, sögðu sig úr Sjálfstæðisflokknum vegna þess hve þeim þótti hallað á hlut kvenna innan flokksins. Jarþrúður er ein þessara kvenna. Hinar eru Helga Dögg Björgvinsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi aðstoðarráðherra hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og fyrrverandi tengdadóttir Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.

 

Formannsembætti í Landssamtökum sjálfstæðiskvenna er og hefur alltaf verið stór áhrifastaða innan Sjálfstæðisflokksins enda hafa þungaviktarkonur innan flokksins gegnt þeirri stöðu. Dæmi um það eru Auður Auðuns, fyrsti kvenráðherra Íslands, Ragnhildur Helgadóttir fyrrum ráðherra og Ásta Möller fyrrum þingmaður flokksins.

 

Það segir því meira en mörg orð um andrúmsloftið innan Sjálfstæðisflokksins þegar fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna gengur úr flokknum og tekur sæti ofarlega á lista Viðreisnar.

 

 

Rtá.

Nýjast