KOM, sá og klúðraði

KOM, sá og klúðraði

Almannatengslafyrirtækið KOM virðist vera sá aðili sem ráðleggur Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra, varðandi ímyndarmál með þeim árangri að Haraldur er orðinn umdeildasti maður landsins.

Hver sem kann að hafa leiðbeint honum varðandi stórt viðtal sem hann fór í hjá Morgunblaðinu fyrir nokkru, ætti að taka sér eitthvað annað fyrir hendur en ráðgjöf á sviði almannatengsla. Í því viðtali sagði Haraldur margt ógætilegt og vanhugsað. Verst var þó þegar sjálfur æðsti embættismaður lögreglunnar í landinu fullyrti að spilling ríkti innan lögreglunnar! Það er einhver versta yfirlýsing sem opinber embættismaður hefur látið frá sér fara lengi. Sé spilling ríkjandi innan lögreglunar, þá hefði æðsti embættismaðurinn átt að grípa til aðgerða strax. Yfirlýsingin hitti því Harald sjálfan fyrir.

Helstu fyrirsvarsmenn KOM almannatengsla eru Friðjón Friðjónsson og Gísli Freyr Valdórsson. Þeir eiga feril að baki innan Sjálfstæðisflokksins og hafa fengið mikið af verkefnum frá þeim ráðuneytum sem flokkurinn hefur stýrt á seinni árum. Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir var innanríkisráðherra gegndi Gísli Freyr stöðu aðstoðarmanns ráðherra og kom mjög við sögu í svonefndu „lekamáli“ sem leiddi til þess að Hanna Birna hrökklaðist úr embætti ráðherra og Gísli Freyr hlaut dóm fyrir aðild sína að málinu. Hann tók á sig skellinn. Eftir að Hanna Birna lét af ráðherraembætti voru dagar hennar í stjórnmálum taldir þrátt fyrir skjótan frama innan Sjálfstæðisflokksins. Hún var fyrst aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins, þá borgarfulltrúi, svo borgarstjóri, þá varaformaður flokksions, síðan alþingismaður og loks ráðherra. Þegar hún féll svo af stalli þá var fall hennar vitanlega mikið.

Meðal þeirra sem ráðlögðu Hönnu Birnu þegar „lekamálið“ var komið í óefni var enginn annar en Friðjón Friðjónsson. Hann var sýndur í sjónvarpi skjótast inn um bakdyr ráðuneytisins þegar reynt var að bjarga málinu sem komið var í hið mesta óefni. Allt kom fyrir ekki. Friðjón var um skeið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, á sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og situr fyrir hönd ráðherra í stjórn Íslandsstofu.

Full ástæða væri til að upplýsa hve miklar þóknanir KOM hefur fengið frá þeim ráðuneytum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt frá því hann komst til valda á ný vorið 2013. Þá væri æskilegt að einhverjir fjölmiðlar spyrðust fyrir um það hvort embætti ríkislögreglustjóra greiðir fyrir þjónustu KOM við Harald Jóhannesson eða hann sjálfur.  Það skiptir okkur skattgreiðendur máli.

Nýjast