Katrín í klípu og engin hátíðarstemning á árs afmælinu

Katrín í klípu og engin hátíðarstemning á árs afmælinu

Það merkilegasta sem kom upp í alræmdu barröfli sex þingmanna Miðflokks og Flokks fólksins er yfirlýsing fyrrverandi utanríkisráðherra um að hann hafi haft samráð við Katrínu Jakobsdóttur um skipan Árna Þórs Sigurðssonar í embætti sendiherra. Gunnar Bragi viðurkenndi að um meiriháttar pólitísk hrossakaup hafi verið að ræða og hann hafi valið að skipa Árna Þór í embætti til að beina athygli almennings frá því að hann skipaði Geir Haarde einnig. Til þess að flétta Gunnars Braga gengi upp taldi hann sig þurfa blessun formanns VG sem hann fékk. Katrín Jakobsdóttir er því vitorðsmaður í þessu plotti og ber sína ábyrgð á þessum pólitísku hrossakaupum.

 

Þetta er skelfileg uppljóstrun sem truflar Katrínu Jakobsdóttur þar sem hún reynir að halda því að landsmönnum að hún sé heiðarlegust allra núverandi þingmanna og hafi ríka siðferðiskennd. Hún er þá ekki heiðarlegri en þetta og siðferðisviðmiðanir hennar eru bara hinar sömu og forystumanna þeirra flokka sem jafnan eru taldir spilltastir í hagsmunagæslunni. Enda hefur hún látið sig hafa það að vinna með þeim í ríkisstjórn í heilt ár. Ætlunin var að halda upp á ársafmælið og reyna að upphefja þessa verklausu ríkisstjórn. Öll hátíðarhöld munu falla í skuggann af barmálinu og þeirri uppljóstrun að Katrín hafi tekið þátt í hrossakaupunum með Gunnari Braga. Hún verður ekki trúverðug eftir þetta og ætti að hafa vit á að stilla sjálfhóli og fjasi um heiðarleika í hóf.

 

Þegar litið er yfir þetta ár ríkisstjórnarinnar  blasir við að afrekaskráin er nær engin. Það eftirminnilegasta frá þessu starfsári eru tilburðir ríkisstjórnarinnar til að lækka veiðileyfagjöld um 4 milljarða til hagsbóta fyrir sægreifana. Það hefur ekki gengið þrautarlaust fyrir sig og gengur gegn stefnu VG um afgjald af auðlindum. Ekki hjálpar að ætlunin er að skerða framlög til öryrkja um einn milljarð til að geta lækka veiðileyfagjöldin. Hver hefði trúað þessu á VG fyrir kosningar?

 

Núverandi ríkisstjórn var mynduð í neyð. Úrslit síðustu kosninga voru þannig að enginn kostur var góður og enginn þorði að leggja á djúpið með samstarf fimm flokka í ríkisstjórn. Ríkisstjórn þessara þriggja framsóknarflokka var niðurstaðan. Stjórnarsáttmálinn er um kyrrstöðu. Ekki á að breyta neinu til batnaðar. Ekki er ætlunin að auka sanngirni varðandi sjávarútvegskerfið, ekki er ætlunin að koma til móts við neytendur og skattgreiðendur varðandi landbúnaðarkerfið, ekki á að horfast í augu við þann háskalega vanda sem veik íslensk króna er. Engar breytingar á að gera á þessu minnsta myntkerfi í heimi. Íslensk króna sem blaktir eins og lauf í vindi er engin framtíðarlausn fyrir Ísland. Þetta vita allir. En núverandi ríkisstjórn hyggst ekki gera neitt í málinu. Stefna stjórnarinnar gengur út á hræðslu gagnvart útlöndum og óvild gagnvart Evrópu, að ekki sé nú talað um það skelfilega fyrirbæri evruna!

 

Vinstri græn hafa allt frá hruni talað um bætt siðferði í stjórnmálum. Talað um að yfirgefa „gamla tímann“ þar sem spillingin réði ríkjum og hefja ferð okkar inn í „nýja Ísland“. Nú hefur flokkurinn forsætisráðherra í fyrsta skipti í sögunni. Og hvað gerist í siðferðismálunum? Jú, forsætisráðherrann verður uppvís að því að hafa tekið þátt í hrossakaupum varðandi skipan í sendiherraembætti og sami forsætisráðherra unir því að hafa í ráðuneyti sínu tvo dæmda lögbrjóta, konur sem hafa hlotið Hæstaréttrdóma fyrir brot í embætti ráðherra, Sigríði Andersen dæmdan dómsmálaráðherra og Svandísi Svavarsdóttur sem hlotið hefur dóma fyrir embættisafglöp bæði í umhverfisráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Þá hefur Katrín Jakobsdóttir veitt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sakaruppgjöf vegna vafasamra fjármálasnúninga á árunum fyrir 2008 vegna þess að þeir atburðir urðu „fyrir hrun“ eins og Katrín sagði. Eru þá allir með hreint borð sem hafa siglt lygnan sjó eftir hrun þó þeir hafi gert eitthvað af sér fyrir hrun? Verður ekki sama yfir alla þegna landsins að ganga? Eða eru sumir jafnari fyrir lögunum en aðrir?

 

Á eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar hefur Katrín Jakobsdóttir ekki af miklu að státa. En trúlega fagnar hún afmælinu engu að síður því henni virðist líka hið meinta vald mjög vel. Hún hefur fórnað stefnu og hugsjónum Vinstri grænna fyrir valdastólana. Hún er alveg eins og hinir sem flokkur hennar hefur gagnrýnt harðlega gegnum tíðina fyrir valdabrask. Það er sami rassinn undir þeim öllum.

 

Þegar þessi ríkisstjórn fer frá völdum næsta vor eða næsta haust, þá verður Katrínar Jakobsdóttur einkum minnst fyrir það að hafa fengið myndir af sér með leiðtogum hinna hernaðarþjóðanna hjá NATÓ.

Stelpan sem gekk Keflavíkurgöngur og hrópaði „Herinn burt“, tók sig vel út með nýju félögunum í NATÓ. Um að gera að laga sig hratt að breyttum aðstæðum: Allt fyrir ráðherrastólana!

 

Rtá.

Nýjast