Hvers vegna hrynur fylgi VG og ríkisstjórnarinnar?

Hvers vegna hrynur fylgi VG og ríkisstjórnarinnar?

Vinstri græn leiða fylgishrun ríkisstjórnarinnar samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups sem birtur var í dag. Stuðningur við VG er kominn niður í 10.7% og hefur ekki mælst lægri síðan 2015. VG hlaut 17% fylgi í kosningunum í lok október 2018 og hefur því misst 37% af fylginu á 9 mánuðum. Meira en þriðji hver kjósandi VG hefur yfirgefið flokkinn á einum meðgöngutíma.

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar einnig frá mánuði til mánuðar og er nú kominn niður fyrir helming en var yfir 70% í upphafi.

Samkvæmt Gallup fengi Framsókn 9.2% og Sjálfstæðisflokkur 24.6%. Báðir þessir framsóknarflokkar eru að festast í minnsta fylgi sínu frá upphafi.

Samtals fengju ríkisstjórnarflokkarnir 29 þingmenn kjörna miðað við fyrrgreint fylgi og þar með væri ríkisstjórnin fallin. Stjórnarandstaðan fengi 34 þingmenn kjörna; Samfylking 10 þingmenn, Píratar 9, Viðreisn 6, Miðflokkur 6 og Flokkur fólksins 3.

Fylgishrun ríkisstjórnarinnar þarf ekki að koma á óvart. Stjórninni virðist vera fyrirmunað að gera nokkuð rétt eða vel. Hún hefur þegar svikið fjölmörg kosningaloforð og kjósendum ofbýður undirlægjuháttur hennar gagnvart sérhagsmunahópunum í sjávarútvegi og landbúnaði.

Þá þykir óþolandi að lögbrjóturinn Sigríður Andersen sitji enn í embætti dómsmálaráðherra eftir að hafa hlotið dóm í Hæstarétti fyrir embættisafglöp.

Ekki bætti úr skák að ríkisstjórnin og forseti Alþingis gátu ekki komist í gegnum hátíðarfundinn á Þingvöllum án þess að gera sig að athlægi.

Mörgum sósíalistum leið mjög illa að sjá leiðtoga sinn innan um stríðsfurstana hjá NATO í Brussel fyrr í sumar á fundi hernaðarbandalagsins.
Hún vildi alls ekki missa af því að vera á hátíðarmynd með Trump og Merkel.

Katrín er farin að vera svo upptekin af stöðu sinni og meintu “valdi” að hún er búin að gleyma grasrótinni og uppruna sínum í Keflavíkurgöngunni og á mótmælafundum. 

Hún mun senn komast að því að sá sem nýtur ekki virðingar og stuðnings kjósenda hefur ekkert “vald”.

Rtá.

Nýjast