Hvar var Kristín tengdó?

Hvar var Kristín tengdó?

Fréttablaðið birtir í dag einkennilega skoðanakönnun sem er verulega frábrugðin nýjum könnunum stóru fagfyrirtækjanna á sviði kannana. Bæði Gallup og Félagsvísindastofnun hafa nýlega birt kannanir sem eru Samfylkingunni mun hagstæðari en sú sem FB er með í dag. Hún kemur mun betur út fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hinar og mælir að meirihlutinn í Reykjavík sé fallinn.

Fréttablaðið hefði átt að sýna lesendum þá kurteisi að láta það koma skýrt fram við birtingu fimm dálka forsíðufréttar um niðurstöðu þessarar könnunar að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri og útgefandi FB, er tengdamóðir Hildar Björnsdóttur sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum þann 26. mai nk.

Kristín er æðsti stjórnandi blaðsins og því eiga lesendur þess heimtingu á að vita um tengsl af þessu tagi þegar fjallað er um svo viðkvæm mál sem skoðanakannanir eru í aðdraganda kosninga.

Með þessari ábendingu er ekki verið að halda því fram að Kristín Þorsteinsdóttir hafi misnotað stöðu sína.

En staðreynd af þessu tagi þarf að vera lesendum blaðsins ljós og aðgengileg. Þeir eiga siðferðislegan rétt á því.

Rtá.

Nýjast