Gylfi Zoëga hljóp á sig og hlýtur að biðjast afsökunar

Gylfi Zoëga hljóp á sig og hlýtur að biðjast afsökunar

Prófessor Gylfi Zoëga, doktor í hagfræði, hljóp illilega á sig í vikunni þegar hann fjallaði um málefni Icelandair með þeim hætti að hann gæti stórskaðað alþjóðlegt orðspor félagsins að ósekju.

Gylfi er almennt talinn hinn vænsti gáfumaður, sanngjarn og velviljaður fræðimaður með mikla menntun að baki. Hann var afburðanemandi og dúx í MR á sínum tíma með ofureinkunnir. Mikill námsárangur í æsku er ekki endilega trygging fyrir því að menn séu óskeikulir síðar á ævinni. Gylfi hefur verið fræðimaður og háskólakennari allan sinn starfsferil og einnig setið lengi í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem er mikil valdastaða í efnahagslífi landsmanna. Hann hefur hins vegar enga starfsreynslu í sjálfu atvinnulífinu eins og því miður kom berlega í ljós þegar hann kom með vanhugsaðar yfirlýsingar á opnum fundi efnahagsnefndar Alþingis.

Hann fjallaði um horfur framundan í atvinnulífinu og gerði mikið úr þeirri fækkun sem orðið hefur á koma erlendra ferðamanna til landsins. Á máli hans mátti skilja að um væri að ræða mjög alvarlegt ástand. Hann lét þess þó ekki getið að þrátt fyrir vissa tímabundna stöðnun stefndi í komu tveggja milljóna erlendra ferðamanna til landsins á þessu ári. Í byrjun þessarar aldar voru erlendir ferðamenn einungis um 400 þúsund á ári. Þrátt fyrir minnkun á þessu ári er fjöldi erlendra ferðamanna til landsins að fimmfaldast á 18 árum. Er það tilefni til upphrópanna og heimsendaspádóma? Nei, aldeilis ekki! Svartsýni hins virta prófessors var algerlega óþörf.

En svo vék hann sérstaklega að einu mikilvægu fyrirtæki, Icelandair, og sagði eitthvað á þá leið að stjórnvöld skyldu hafa auga með rekstri fjugfélagsins þannig að fjárhagsvandi þess legðist ekki á ríkissjóð. Hann virðist ekki hafa horft til þess að eiginfjárstaða félagsins nemur 55 milljörðum króna og lausafjárstaða þess nemur um 30 milljörðum króna. Við slíkar aðstæður er fyrirtæki sannarlega ekki í neinni hættu. Til að undirstrika meinta hættu sagði Gylfi að Icelandair gæti ekki reitt sig á að fá 17 milljarða króna í bætur frá Boeing vegna þeirra galla sem hafa komið fram í svonefndum Max vélum þeirra. Gylfi virðist ekki hafa gert sér ljóst að Icelandair hefur ekki tekjufært eða eignfært neinar bætur frá Boeing. Einungis krafist þeirra.  Því yrðu allar bætur sem fengjust einungis til að bæti sterka eiginfjárstöðu félagsins enn frekar. Því var þessi athugasemd Gylfa Zoëga alveg út í hött.

Ljóst er að skaðleg ummæli af þessu tagi geta valdið fyrirtæki miklu tjóni ef þau verða t.d. til þess að erlendar fjármálastofnanir bjóði lakari vaxtakjör vegna slíkrar umræðu þar sem vísað væri í orð virts fræðimanns og manns sem setið hefði í peningastefnunefnd seðlabanka landsins.

Þar sem Gylfi er mikill sómamaður þá hlýtur hann að draga ógætileg orð sín til baka og biðjast opinberlaga afsökunar. Geri hann það ekki, hlýtur Icelandair að skoða réttarstöðu sína alvarlega vegna þessara skaðlegu ummæla.

Nýjast