Gullfiskaminni fjölmiðla og stjórnmálamanna er hrópandi

Gullfiskaminni fjölmiðla og stjórnmálamanna er hrópandi

Við áramót keppast allir fjölmiðlar við að rifja upp margvíslega atburði ársins sem er að kveðja. Fjölmiðlum og stjórnmálamönnum er tamt að fjalla um hneykslismál og þá atburði sem helst hafa valdið ágreiningi á árinu. Miðað við umfjallanir síðustu vikna mætti halda að ekkert hafi gerst annað á árinu en hneykslið á Klausturbarnum þegar sex þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins drukku sig illa fulla. Þá mætti ætla að ekkert hafi gerst í stjórnmálum sem máli skiptir þannig að hægt sé að pexa um framúrkeyrslu á kostnaði við umdeild húsbyggingu í Nauthólsvík. Það er ómerkileg umræða í ljósi þess að 90% af öllum opinberum framkvæmdum fara framúr áætlunum eins og dæmin sanna. Stundum nemur það milljörðum króna án þess að mikið sé um það fjallað. Gott dæmi um það er gerð Vaðlaheiðarganga sem virðast ætla að fara 10 eða 12 milljarða fram úr áætlun – allt í boði fjórflokksins. Og þess vegna ríkir þögn um hneykslið. Bandalag gömlu flokkana um þögn. Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn, Framsókn og Samfylking bera ábyrgð á þessu hneyksli og það liggur í þagnargildi. Því má spyrja:

 

Hvers vegna taka Viðreisn og Píratar þetta stóra hneykslismál ekki upp í þinginu? Hvers vegna beina þeir ekki kastljósinu að umræddu milljarðasukki? Vaðlaheiðargöngunum var ýtt af stað á vakt Steingríms J. Sigfússonar í vinstri stjórninni. Hann handjárnaði þingmenn kjördæmisins við verkefnið og lét þá styðja það til að tryggja að þeir gætu ekki notað það gegn honum þegar allt færi fram úr áætlun. Þess vegna studdu Kristján Möller, Kristján Þór Júlíusson og Sigmundur Davíð málið. Í ríkisstjórninni 2013 til 2016 var Bjarni Benediktsson orðinn fjármálaráðherra og tók þá við þeim kaleik að bera fjárhagslega ábyrgð á þessu stóra sukki.  Hvers vegna ættu Viðreisn og Píratar að hlífa fjórflokknum vegna þessa milljarðahneykslis?

 

Fjölmiðlar hafa rifjað upp vandræða-og hneykslismál undanfarna daga. Klaustursklúðrið yfirskyggir þar allt. En eru menn búnir að gleyma eftirtöldum atburðum?: 

 

 1. Sjálftöku Ásmundar Friðrikssonar á aksturskostnaði frá Alþingi þar sem hann virðist hafa dregið sér milljónir króna – átölulaust.
 2. Dómunum sem tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hlutu í Hæstarétti. Bæði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir hlutu dóma á árinu fyrir embættisafglöp en sitja sem fastast í ríkisstjórn. Slíkt væri hvergi liðið á Vesturlöndum. Síst af öllu að dómsmálaráðherra viki ekki.
 3. „Árangri“ Íslands í Eurovision.
 4. Brottrekstri Kristins Sigurjónssonar lektors sem leyfði sér að hafa skoðanir sem yfirstjórn HR féll ekki við. Kostar skólann milljónir í skaðabætur.
 5. Afhroðinu sem landslið Íslands í knattspyrnu galt gegn Sviss þegar liðið tapaði 0-6. Hefur ekki unnið leik á öllu árinu.
 6. Klúðri Björns Braga Arnarsonar sem varð uppvís að kynferðislegri áreitni gagnvart stúlku undir lögaldri.
 7. Klúðri Hjartar Hjartarsonar íþróttafréttamans sem var sendur heim frá HM í Rússlandi vegna átaka við annan íþróttafréttamann.
 8. Ýmsum vandræðagangi innan kirkjunnar vegna erfiðra mála sem upp hafa komið og biskup hefur ekki ráðið við að taka á með myndugleik. Þriðjungur þjóðarinnar vill ekki vera lengur innan þjóðkirkjunnar.
 9. Fullveldishátíðinni á Þingvöllum sem kostaði meira en tvöfalt á við það sem átti að vera og reyndist svo vera með eindæmum vandræðaleg. Forseti Alþingis bauð dönskum öfgamanni að vera heiðursgestur og ávarpa samkomuna. Þar tók steininn úr.
 10. Flullveldishátíðinni þann 1. desember framan við stjórnarráðið þar sem ráðherrar skulfu í kuldanum og Danadrottning fraust nánast föst sem eftir var tekið.
 11. Heræfingum og hernaðarbrölti á vegum NATÓ í boði Katrínar Jakobsdóttur formanns VG en hún er yfirlýstur NATO-andstæðingur í áratugi!
 12. Tímabundinni afsögn Ágústs Ólafs Ágústssonar þingmanns Samfylkingar vegna áminningar sem hann hlaut hjá siðanefnd flokksins vegna kynferðislegrar áreitni.
 13. Sigri Stundarinnar fyrir dómstólum þegar lögbanni á birtingu upplýsinga um vafasöm fjármálaumsvif Bjarna Benediktssonar var hrundið. Eftir það birti Stundin afhjúpun sína á 12 blaðsíðum sem sýnir fram á hvernig innherjar stunduðu viðskipti með verðbréf rétt fyrir hrun til að bjarga verðmætum.
 14. Vandræðalegri upprifjun á málum tengdum Helga Hjörvar fyrrum þingmanni Samfylkingar þar sem hann er sakaður um kynferðislega áreitni.
 15. Plotti Gunnars Braga vegna sendiherrastöðu sem hann segist hafa unnið með Bjarna Benediktssyni og Katrínu Jakobsdóttur. Sýnir hvernig fjóflokkurinn hefur haft bandalag um umdeildar stöðuveitingar gegnum tíðina. Þessi hluti af umfjöllun um Klausturhneykslið er áþreifanleg pólitík sem má ekki gleymast í öllu talinu um ruddaskap og dónatal þingmanna sem voru þar á þessu rándýra fylliríi.
 16. Handtöku tveggja Íslendinga á flugvelli í Ástralíu þar sem þeir voru með fíkniefni í fórum sínum að verðmæti 220 milljónir króna. Nærri má geta hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir þessa menn.

 

Hér verður látið staðar numið í upptalningunni þó unnt væri að halda lengi áfram. Vandræðamálin eru svo mörg og margvísleg. Sum snúast um ásakanir um kynferðislega áreitni sem fer nú mjög fjölgandi, aðrar snúast um átök fólks fyrir dómstólum og svo er listinn um svik stjórnmálamanna vitanlega endalaus.

 

Merkilegt hve erfitt þessari 350.000 manna þjóð virðist ganga að halda sér á mottunni!

 

Vonandi gengur bara betur á nýju ári. Gleðilegt ár!

 

Nýjast