Flokkinn skortir kvennskörunga og Gulli græðir á því

Flokkinn skortir kvennskörunga og Gulli græðir á því

Styrmir Gunnarsson bergmálar vaxandi áhyggjur flokkseigenda í Sjálfstæðisflokknum þegar hann fjallar um kosningu varaformanns á landsfundi eftir þrjá mánuði.
 
Í vikulegri grein sinni laugardag segir hann meðal annars að líklegt sé að fyrst og fremst verði horft til kvenna þegar kemur að vali varaformanns:
 
"Sumir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins telja líklegt að þar muni Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir koma við sögu. Aðrir horfa til Unnar Brár Konráðsdóttur."
 
Þetta sýnir hve fátækur flokkurinn er nú þegar kemur að forystukonum. Ekki er lengur um neina kvennskörunga að ræða. Meðalmennska einkennir. Eftir að Ólöf Nordal féll frá getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki teflt fram neinni sterkri og virtri konu í embætti varaformanns.
 
Styrmir nefnir Þórdísi Kolbrúnu. Hún kom inn á þing í síðustu kosningum og varð strax ráðherra, algerlega óreynd. Enn sem komið er hefur hún ekkert sýnt sem verðskuldar enn meiri vegtyllur í stjórnmálum. Hún er fyrirferðarlítil og nánast gleymdur ráðherra.
 
Að Styrmir skuli nefna Unni Brá sem hugsanlegan varaformann flokksins segir meira en mörg orð um aumlegt ástand mála. Hann er örugglega ekki búinn að gleyma því að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi höfnuðu Unni í síðasta prófkjöri. Hún lenti í fimmta sæti á eftir kratanum Páli Magnússyni, Ásmundi Friðrikssyni, Vilhjálmi Árnasyni og Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem skyldi höfnun flokksins og gaf ekki kost á sér.
 
Við brottför Ragnheiðar færðist Unnur Brá upp í fjórða sæti og slapp inn á þing. Hún skyldi ekki að flokkurinn í kjördæmi hennar hafði hafnað henni. Styrmir telur að þessi manneskja komi til greina sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins!
 
Flokkurinn hefur nú ekki á að skipa konum sem hafa pólitíska burði til að geta gegnt embætti varaformanns. Því aukast mjög líkurnar á því að karlmaður verði kjörinn varaformaður á landsfundi þann 5. nóvember nk.
 
Þetta veit Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Hann þekkir innviði flokksins betur en flestir og er sá forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem gefur sér helst tíma til að sinna innra starfinu af alúð. Það skilar sér ríkulega á landsfundum.
 
Engum mun takast að stöðva Guðlaug Þór ef hann ákveður að sækjast eftir embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
 
Eða stefnir utanríkisráðherrann ef til vill enn hærra?
 
Rtá
 

Nýjast