Davíð og Hannes Hólmsteinn afhjúpa húmorleysi sitt

Davíð og Hannes Hólmsteinn afhjúpa húmorleysi sitt

Margir gleðjast yfir því hvernig Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Davíð Oddsson létu Jón Gnarr og félaga sem sömdu skaupið veiða sig í gildru. Þeir hafa báðir stigið fram í fjölmiðlum og ekki getað dulið reiði sína og svekkelsi yfir skaupinu sem vissulega hlífði engum og virðist hafa hitt á veika bletti hjá þeim sem eru lengst til hægri. Auðvitað dreymdi Sveppa, Jón Gnarr, Kötlu Margréti og félaga um að ná að hreyfa þannig við einhverjum að líflegar umræður sköpuðust um verk þeirra. Þegar tekst að æsa þekkta og umdeilda menn upp með þeim hætti sem orðið hefur er tilganginum náð. Davíð og Hannes hafa orðið sér til minnkunar og það hefur vissulega glatt marga sem er lítið um þá fóstbræður gefið. Eins og kunnugt er gegnir Hannes Hólmsteinn lykilhlutverki í náhirð Davíðs og hefur alla tíð varið hann í blindri aðdáun.

 

Ljóst er að atriðin úr Valhöll hafa farið fyrir brjóstið á íhaldsmönnunum. Þá var gert grín að því þegar Heimdallur valdi Kristján Loftsson frelsishetju Heimdallar árið 2018. Kristján er maður vel á áttræðisaldri og einkum þekktur fyrir umdeilt hvaladráp. Hópurinn sem fagnaði „ungu“ frelsishetjunni var mjög í eldri kantinum í þessu atriði. Þá var komið við veikan blett á Eyþóri Arnalds í öðru atriði en það fellur að sjálfsögðu í grýtta jörð á Mogga þar sem hann er sagður vera stærsti hluthafinn.

 

Hannes Hólmsteinn hafði stór orð um Jón Gnarr og kenndi honum um þau atriði sem fóru mest fyrir brjóstið á honum. Fram hefur komið að höfundar skaupsins eru sex talsins og handritið er hópvinna þeirra.

Hannes hélt því fram að Jón Gnarr væri letingi og auðnuleysingi. Dæmi nú hver fyrir sig en margir halda því fram að Jón Gnarr sé einn farsælasti ef ekki allra farsælasti borgastjóri allra tíma í Reykjavík. Það er auðvitað matsatriði.

 

En það er ekkert matsatriði, heldur óumdeild staðreynd, að Jón Gnarr hefur aldrei verið dæmdur af íslenskum dómstólum fyrir ritstuld.

http://www.dv.is/frettir/2019/01/03/david-aefur-yfir-skaupinu-og-vill-ad-syningum-thess-verdi-haett-thad-setti-nyjan-botn-med-afgerandi-haett/

 

 

Nýjast