Borgarbúar vilja ekki leiðsögn Guðna Ágústssonar og Framsóknarflokksins

Borgarbúar vilja ekki leiðsögn Guðna Ágústssonar og Framsóknarflokksins

Sá skemmtilegi og ágæti framsóknarmaður Guðni Ágústsson birtir grein í Morgunblaði dagsins þar sem hann reynir að segja Reykvíkingum fyrir verkum og tekur sér far með þeirri bjánalegu umræðu sem minnihlutinn nærist á varðandi strá, bragga og nú síðast möguleg pálmatré.

Því miður er ekki hjá því komist að benda Guðna á að Reykvíkingar hafa hafnað allri leiðsögn framsóknarmanna. Í borgarstjórnarkosningunum vorið 2018 fékk flokkur Guðna ENGAN mann kjörinn. Við borgarbúar mátum það þannig að Framsóknarflokkurinn ætti ekkert erindi við okkur. Fylgi flokksins mældist einungis rúm 2% og því fékk hann engan mann kjörinn - þó búið sé að fjölga fulltrúum í 23. Sú var tíð að Framsóknarflokkurinn átti tvo af fimmtán borgarfulltrúum. Nú á hann engan af 23. Reykvíkingar hafa afþakkað leiðsögn Framsóknar og þetta verður Guðni Ágústsson að horfast í augu við þó sárt sé.

Það sem verra er fyrir Framsókn og þar með Guðna er að eini þingmaður flokksins í Reykjavík er fallinn samkvæmt tveimur nýjustu skoðanakönnunum Gallup. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, rétt náði kjöri í síðustu Alþingiskosningum en kæmist ekki á þing ef kosningar færu nú fram. Reykvíkingar munu leysa hana frá störfum í næstu kosningum sem gætu orðið fyrr en varir.

Fylgi Framsóknar er einungis 8.8% á landsvísu samkvæmt könnun Gallup. Mest úti í sveitum en hverfandi í Reykjavík. Af sem áður var þegar Sigmundur Davíð leiddi flokkinn með 24% fylgi vorið 2013!

Kjósendur í Reykjavík bjóða flokk Guðna ekki velkominn og kæra sig ekki um neina leiðsögn úr þeirri átt.

Nýjast