Býður allri þjóðinni í afmæli sitt

Það er sannkölluð sögustund í viðtalsþættinum Mannamáli í kvöld þar sem óperusöngvarinn Bergþór Pálsson sest inn í betri stofuna á Hringbraut og deilir ævi sinni með áhorfendum Hringbrautar.

Hann kveðst hafa falið fiðluna á bak við bak þegar hann fór í tónlistartímana á unga aldri, á meðan allir jafnaldrar hans voru í boltanum - og eins þótti það nokkuð sérstakt að hann settist beint fyrir framan píanóið heima hjá sér þegar skólanum lauk á daginn. Hann dróst að tónlistinni - og teningunum var raunar kastað fyrr en hann áttaði sig á því.

Hann rifjar upp þegar hann uppgötvaði kynhneigð sína, en lengi fram eftir árum reyndi hann að lifa gagnkynhneigðu lífi, eða allt þar til hann skildi við eiginkonu sína til margra ára og var fluttur út til Þýskalands, en þar hafði vinkona hans á orði að hann hefði ekki farið á stefnumót við eina einustu konu í heilt ár; hún vissi hvernig komið væri lífi hans og skellti honum inn á ógurlegan karlaklúbb í landinu sem var til þess að Bergþór áttaði sig á sínum innri manni. Hann sendi pabba sínum og mömmu bréf í pósti heim til Íslands til að segja þeim frá því hvernig komið væri fyrir lífi hans - og man hvað hann var efins þegar hann sleppti takinu á umslaginu í lúgu póstkassans.

En foreldrar hans brugðust ekki syninum - og hvöttu hann til dáða á leiðinni út úr skápnum og svo var einnig með systkini hans og önnur ættmenni.

Svo hitti hann Albert fyrir utan bílastæðahús í borginni; þú ert þessi Bergþór, kvað Albert upp úr, mig hefur alltaf langað til að kynnast þér, bætti hann við - og restin er hverjum manni kunn.

Hann stendur á sextugu, fagnar áfanganum á sunnudag, daginn eftir að hann og aðrir þjóðkunnir listamenn á borð við Kristján Jóhannsson og Ólaf Kjartan Sigurðarson hafa frumsýnt Toscu Puccinis í Hörpu, en öllum landsmönnum er boðið í afmælið í Eldborgarsalnum á meðan húsrúm leyfir. Og þar troða upp margir frægustu tónlistarmenn þjóðarinnar. Og hann hlakkar til, getur ekki beðið - og þvílík helgi í lífi eins og sama mannsins!

Mannamál byrjar klukkan 20:30 í kvöld.