Brynjar um sykurskatt: „að skattleggja okkur líka vegna þess að einhverjir aðrir eru óhóflegir í áti? það líst mér ekki á“

Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, líst ekki á fyrirhugaða upptöku sykurskatts. Á föstudaginn í síðustu viku var samþykkt að skipa starfshóp þriggja ráðuneyta sem mun vinna að innleiðingu áætlunar um að taka upp sykurskatt.

„Ég hef aldrei heyrt að þetta væri inni í myndinni. Einhver sykurskattur? Hann var afnuminn þegar við komumst að eftir vinstri stjórnina. Og að skattleggja okkur líka vegna þess að einhverjir aðrir eru óhóflegir í áti? Það líst mér ekki á. Þetta er hugmyndafræði sem menn trúa á en þeir geta þá alveg eins skattlagt kolvetni sérstaklega, þess vegna,“ segir Brynjar í samtali við Vísi.

Honum þykir ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn samþykki sykurskatt: „Ég held ég geti alveg fullyrt að þetta fari aldrei í gegnum þingflokkinn. Þetta er náttúrlega bara skattur á almenning. Ég er ekki fyrir að hringla í þessu, vaskkerfinu öllu saman, nóg er hringlið samt. Best að eitt gildi yfir allt. Það er það besta. Við tökum túrtappa og dömubindi út, alltaf verið að gera einhverjar undantekningar og það flækir þetta og gerir þyngra.“

„Hvar endar þetta? Þetta er bara vandræðalegt. Við verðum að eiga við óhófið með öðrum hætti. Ég er ekki hrifinn af þessu,“ bætir Brynjar við.

Brynjar segir að í prinsippinu sé hann á móti skatti af þessu tagi. „Fólk verður að bera ábyrgð á þessu. Sjálfsagt að hjálpa fólki en ég ætla ekki að skattleggja Pétur og Pál vegna meintra lasta. Við erum alltaf að skipta okkur af fólki, það ber enginn ábyrgð á sjálfum sér lengur.“

„Hlutverk okkar stjórnmálamanna er að búa til almenna umgjörð svo atvinnulífið getur blómstrað en við eigum að láta fólk í friði að öðru leyti. En, nei, við erum farin að skipta okkur af öllu sem fólk gerir. Og allt í nafni þess að við séum að gæta hagsmuna þeirra. Þetta er orðið algjörlega innbyggt í okkur. Við erum eins og stjórnsöm móðir heima sem skiptir sér af öllu sem börnin gera. Skiptu þér af annarra manna börnum en láttu aðra vera,“ segir hann einnig.

Samræmist ekki kjarasamningum

Í pistli á Hringbraut segist Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sömuleiðis vera á móti sykurskatti. Hann segir meðal annars:

„Það er ljóst að hugmyndir að stórauknum sykurskatti uppá allt að 20 til 30% rúmast alls ekki innan þess loforðs sem ríkisstjórnin gaf verkalýðshreyfingunni samhliða gerð lífskjarasamningsins.“

Vísar Vilhjálmur til þess að stjórnvöld og sveitarfélög hafi gefið loforð um að stuðla að verðstöðugleika með því að lofa að gjaldskrár myndu ekki hækka um meira en 2.5 prósent.

Vilhjálmur segist hins vegar gera sér fyllilega grein fyrir því að það sé lýðheilsumál að taka á aukinni sykurneyslu. „[E]n ég tel það ekki vænlegt til árangurs að gera það á forræðishyggjunni einni saman. En það er rétt að geta þess að ég tel það líka vera lýðheilsumál að hér ríki verðstöðugleiki sem leiðir enn frekar til þess að lágtekjufólk nái að framfleyta sér frá mánuði til mánaðar.“