Brynjar: þetta fólk er hættulegra fyrir mannkynið en hlýnun jarðar

„Nú er svo komið hjá frjálslynda fólkinu að aðeins er leyfð ein skoðun á hverju málefni. Allir verða að vera eins og hegða sér eins.“

Þetta segir Brynjar Níelsson í pistli sem birtur er á Hringbraut.is. Þar heldur Brynjar fram að umræðan sé orðin meingölluð, ekki sé tekið tillit til skoðana næsta manns, nema þær séu réttar. Pólitísk rétthugsun sé í raun hættulegri en hlýnun jarðar. Brynjar heldur áfram:

„Svei þeim sem eru á öndverði skoðun um fóstureyðingar, kynrænt sjálfræði, femínisma, umhverfismálum, stefnu í innflytjendamálum svo ekki sé talað um þá sem hafa efasemdir um hlýnun af mannavöldum sem leiði til endaloka mannkyns á næstu árum. Slíkt þurfi að gera refsivert eins og fyrir þá sem afneita helförinni.“

Þá segir Brynjar: „Þeir sem hafa aðra skoðun á þessum málum þarf að útskúfa með öllum tiltækum ráðum.“ Þá segir Brynjar að merkilegt sé að fólkið sem hefur hinar „röngu“ og „vitlausu“ skoðanir sé ekki með útskúfunartilburði eða mótmæli skoðunum hinna.

„Því veltir maður fyrir sér hver er fasistinn í sögunni,“ segir Brynjar og endar pistil sinn á þessum orðum:

„Fólk sem leyfir engin frávik frá pólitískri rétthugsun tapar óhjákvæmilega allri kímnigáfu og skopskyni. Held að það sé hættulegra fyrir mannkynið en hlýnun jarðar.“