Brynjar níelsson og hitt “sjálftökufólkið”

Alþingismaðurinn orðhvati Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, hreytir ónotum í okkur á Hringbraut fyrir að hafa nýlega boðið tveimur fyrrverandi ritstjórum í þann vinsæla viðræðuþátt Ritstjórarnir. Þeir Styrmir Gunnarsson og Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðsins, þingmaður og ráðherra, gagnrýndu Alþingi fyrir að taka við 44.3% launahækkun frá Kjaradómi stuttu áður en allir samningar á vinnumarkaði losna. Þeir notuðu víst orðið “sjálftaka” - og lái þeim hver sem vill!

Brynjar barmar sér hástöfum undan þessu og segir á Facebook í miklum vælutóni sem er ekki gömlum Valsara sæmandi:

“Hringbraut heldur áfram að draga fram hvíta og rúmlega miðaldra karlkyns fyrrum stjórnmálamenn og ritstjóra til að segja hvað þeir voru göfugir og óspilltir og við vitlaus og óheiðarleg í dag.”

Svo er þingmaðurinn svo óheppinn að bæta þessu við: “Þeir lifa á himinháum eftirlaunum sem við “sjálftökufólkið” munum ekki fá.”

Hver skyldu himinháu eftirlaunin þeirra vera? Samkvæmt tekjublaði DV frá síðasta sumri námu mánaðarlaun þeirra árið 2017 þessum fjárhæðum: Styrmir var með 788 þúsund en Sighvatur 1.275 þúsund.
Brynjar var með 1.272 þúsund á mánuði samkvæmt sömu heimild! 

Ekki vantar hræsnina í skrifum Brynjars - nema þetta hafi átt að vera sneið til Davíðs Oddssonar sem á sama tíma var með 5.9 milljónir króna í laun á mánuði. Væntanlega hefur þriðjungur launanna komið frá Morgunblaðinu en 4 milljónir á mánuði árið 2017 í eftirlaun frá hinu opinbera.

Það hljóta að teljast ofurlaun. Eigum við að tala um “sjálftöku” í því sambandi?

Rtá.