Dagur í landsmálin eftir þrjú ár

Frosti Logason og Máni Pétursson í Ritstjórunum:

Dagur í landsmálin eftir þrjú ár

Það er ekki svo að Sigmundur Davíð sé að velja sér vitlausan bardaga með framgöngu sinni í brjóstamálinu svokallaða heldur er útspilið þaulhugsað af hans hálfu, enda fer þar mesti stjórnmálarefur þjóðarinnar sem talar með þessum hætti beint inn í kjósendahóp sinn. Þarna sé komið hans raunverulega brjóstvit í pólitíkinni hér á landi.

Þetta er tónninn í Mána Péturssyni, öðrum tveggja Harmageddon-bræðra sem eru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjóraþætti vikunnar, en særð blygðunarkennd Miðflokksmanna - og raunar stöku starfsmanna Seðlabankans - vegna frjálsra geirvarta, lifandi og listmálaðra, er meðal umræðuefna þáttarins að þessu tagi. Og þeir félagarnir, Máni og Frosti Logason, velta því fyrir sér hvað varð af frjálslyndi þjóðarinnar sem á árum áður kippti sér ekki sekúndubrot upp við berbrjósta konur í öllum sundlaugum landsins - og komast að þeirri niðurstöðu að svo auðvelt sé að etja þjóðinni saman út af kvenmannsbrjóstum í seinni tíma samfélagsmiðlum að starfsmenn þeirra sjái sér beinan hag í því að æra óstöðuga þjóðina í þessum efnum.

Pólitíkin í borginni er tekin fyrir, altso hversu eðlilegt það sé að Dagur haldi áfram á borgarstjórastóli en þeir félagar eru sannfærðir um að hann dvelji þar i þrjú ár og fari svo í landsmálin; það sé raunar á tæru - og spurningunni um þessar lyktir meirihlutaviðræðna svara þeir með með þeim orðum að úrslit kosninganna hafi ekki verið hávær krafa um breytingar, dæmi; aukið fylgi íhaldsins hafi verið minna en fylgi sósíalista í borginni.

Vanlíðan VG-fólksins í ríkisstjórninni er líka til tals og svo náttúrlega sá súrrealíski samfundur Trumps og Kims í Síngapúr sem gæti skilað þeim fyrrnefnda friðarverðlaunum Nóbels, hver veit - og loks er HM rýnt til botns, bæði karlaævintýrið og upprrennandi Frakklandsferð kvennana í sömu keppni að ári.

Ritstjórarnir eru aðgengilegir á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

Nýjast