Breytt bankakerfi og stjórnarskrá

Áfram er rætt við forystufólk flokkanna sem bjóða fram til Alþingis í öllum kjördæmum. Í kvöld mæta Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírati og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Miðflokki. Bæði bjóða sig fram í Reykjavík kjördæmi norður. 

Helgi Hrafn nefnir að megináhersla Pírata sé að taka upplýstar ákvarðanir varðandi heilbrigðiskerfið og meira þurfi að gera en til stóð í fjárlagafrumvarpinu, það er, að byggja aðallega upp meðferðarkjarnanna - sjálfan spítalann - en ekki setja mikið meira í reksturinn. Helgi Hrafn segir skýrt að í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum muni Píratar ekki gefa eftir kröfum og breytingu á stjórnarskránni í ljósi kosninga um tillögur stjórnlagaráðs.

Í snörpum viðtölum við hvort um sig kom fram að báðir flokkar tala um kerfisbreytingu. Hjá Miðflokknum er stefnan að endurskipuleggja bankakerfið. Ríkið selji Íslandsbanka erlendum eigendum, eignast aftur á móti Arion banka en að þjóðin eignist þriðjung hans, íslenska ríkið annan þriðjung og restin verði seld fjárfestum.  Ríkið muni áfram eiga Landsbankann. Þetta segir Guðfinna sé til að hægt sé að nota umfram eigið fé bankanna og minnka bankakerfið svo hægt sé að nota þá peninga sem fáist með því, til að treysta innviði samfélagsins. 

 Sigmundur Ernir og Linda Blöndal taka á mánudögum viðtöl við forystufólk fram að kosningum 28.október nk.