„Þessi fyrirtæki virðast án nokkurrar heimildar geta gengið inn á bankareikninga einstaklinga og tæmt þá“

Breki hjólar í smálánafyrirtæki:

„Þessi fyrirtæki virðast án nokkurrar heimildar geta gengið inn á bankareikninga einstaklinga og tæmt þá“

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir það mikinn áfellisdóm yfir samfélaginu að hafa ekki staðið betri vörð um fólk sem verði smálánafyrirtækjum sem starfa hér á landi að bráð. Hann segist vita til þess að einstaklingar séu að greiða á bilinu 1.500 til 3.500 prósenta vexti, sem er mun hærri prósentutala en leyfilegt er að innheimta samkvæmt lögum.

„Þessi fyrirtæki nota ótrúlega harða markaðssetningu, beina henni gjarnan að ungu og óreyndu fólki og virðast án nokkurrar heimildar geta gengið inn á bankareikninga einstaklinga og tæmt þá,“ segir Breki í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segist vita til þess að fólk lendi í verulegum vandræðum sökum þess að smálánafyrirtæki hafi tæmt bankareikning viðkomandi í upphafi mánaðar. „Við hjá Neytendasamtökunum vitum til þess að fólk á bótum hefur ekki getað staðið við leigugreiðslur og misst íbúðir sínar vegna þess að smálánafyrirtæki hafa misnotað greiðslumiðlunarkefi fjármálastofnana og tekið háar upphæðir út af reikningum fólks.“

„Svo þegar við köllum eftir sundurliðun eða öðrum gögnum þá fáum við yfirleitt engin svör frá þessum smálánafyrirtækjum. Við sem samfélag ættum að standa vörð um þetta fólk. Vilji löggjafans og dómstóla er skýr, en samt sem áður hefur okkur mistekist og það er mikill áfellisdómur yfir samfélaginu,“ bætir Breki við.

Svívirðilegir vextir

Breki nefnir dæmi um ungan og óreyndan pilt, 18 ára gamlan, sem hafi safnað skuld upp á 1,9 milljónir króna á skömmum tíma. Pilturinn hafi „rúllað“ láninu sínu áfram með nýjum smálánum og þannig fór skuld hans úr nokkrum þúsund krónum í þessa upphæð.

„Hann tekur yfir eitt hundrað smálán, samtals 1,9 milljónir, og svo bætast við svívirðilegir vextir ofan á þetta. Fólk með litlar sem engar tekjur á ekki að geta tekið svona hátt lán, það segir sig sjálft,“ segir Breki og bætir við að faðir drengsins sé nú að hjálpa honum að greiða niður skuldina.

Nýjast