Gamla steinbryggjan í reykjavík kemur í ljós: verður opin almenningi - sjáðu myndirnar

Brátt lýkur framkvæmdum í Tryggvagötu og umhverfis Hafnartorg. Þegar gamla steinbryggjan sem liggur undir Pósthússtræti kom í ljós við gatnaframkvæmdir á liðnu sumri  var ákveðið að breyta hönnun götunnar og gera bryggjuna sýnilega. Þessi breyting seinkaði eðlilega framgangi verksins en þessa dagana er unnið við frágang við gömlu bryggjuna.  Þessi endurnýjaði kafli milli Tryggvagötu og Geirsgötu var áður hluti Pósthússtrætis en heitir nú Steinbryggja.

\"\"

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við gömlu bryggjuna verður torg með setbekkjum, hjólabogum, trjám og sérhannaðri lýsingu. Gamla steinbryggjan verður sýnileg og hægt að ganga niður tröppur að henni  á tveimur stöðum. Timburpallar verða við bryggjuna fyrir þá sem vilja staldra við og setjast niður.  Næst tollhúsinu kemur veggmynd sem minnir á bátana sem áður lögðust þarna að. Framkvæmdum á svæðinu lýkur í sumar.

Gatan var áður hönnuð fyrir bílaumferð en nú verður enginn gegnumakstur. Aðkoma í bílakjallarann undir Hafnartorgi verður frá Geirsgötu. Í haust er reiknað með að halda áfram endurgerð Tryggvagötu þegar götukaflinn framan við Tollhúsið verður endurgerður.

\"\"

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Steinbryggjan var upphaflega reist af bæjarsjóði Reykjavíkur árið 1884. Hún þótti á sínum tíma dýr en mikil framför miðað við litlu trébryggjurnar út af fjörukambinum sem voru í einkaeigu kaupmanna. Steinbryggjan var fyrsti viðkomustaður þeirra sem komu til landsins. Bryggjan var vel sýnileg fram að seinni heimsstyrjöld, en hefur í gegnum tíðina aðeins skotið upp kollinum við gatnaframkvæmdir og lagnavinnu.